Það er komin helgi og því tilvalið að gera vel við sig með pítsukvöldi! Þessa uppskrift að pítsu fann ég á matarvefnum Delish. Blandan er furðuleg en hún virkar, þótt ótrúlegt megi virðast. Þorir þú að smakka?

Pítsa með súrum gúrkum og beikoni

Hráefni:

2 msk. ólífuolía
1 tsk. hvítlaukskrydd
1 tsk. ítalskt krydd
1 tilbúinn pítsubotn
1½ bolli rifinn ostur
¼ bolli rifinn parmesan ostur
¾ bolli súrar gúrkur
4 beikonsneiðar, eldaðar og saxaðar
1 msk. ferskt dill, saxað
½ tsk. chili flögur
Ranch sósa (til að bera fram með – má sleppa)

Aðferð:

Hitið ofninn í 190°C og setjið smjörpappír á stóra ofnplötu. Blandið olíu, hvítlaukskryddi og ítölsku kryddi vel saman í skál. Setjið pítsubotninn á ofnplötuna og penslið hann með olíu. Setjið rifinn ost og parmesan ofan á olíuna og bakið í korter. Setjið súrar gúrkur og beikon ofan á ostinn og bakið í 5 mínútur til viðbótar. Toppið með dilli og chili flögum og berið fram.