Það er nokkuð vel af sér vikið að ganga um tíu þúsund skref á dag, eins og þeir sem ganga með skrefamæli vita. Það var hins vegar ekki nóg fyrir YouTube-stjörnuna Mark Fischbach, sem er með marga milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlinum. Fischbach ákvað að reyna við svakalega áskorun – að ná hundrað þúsund skrefum á einum degi.

„Ég var sorglega illa búinn undir þá vinnu sem þurfti til að ná markmiðinu og hve mikið brjálæði þetta markmið var,“ segir hann í nýju myndbandi á rás sinni þar sem hann lýsir upplifun sinni af þessari áskorun.

Dagurinn hans byrjaði vel og hann náði tíu þúsund skrefum áður en klukkan sló 9 um morguninn. Hann hélt áfram að hreyfa sig og gerði sér þá grein fyrir hve óvanur hann væri því að vera sífellt á hreyfingu.

„Ég bæti við skrefum hvar sem er, sama hvað ég var að gera og ég var sífellt á hreyfingu,“ segir hann. „Ég fattaði að ég lifi kyrrsetulífi þannig að ég þurfti að breyta því.“

Eins og gefur að skilja var ekki einfalt verk að vera sífellt á hreyfingu, eins og YouTube-stjarnan komst að þegar hann þurfti að elda, borða og annað í þeim dúr. Þá kom honum á óvart hve mörgum hitaeiningum hann brenndi með því að ganga en samkvæmt útreikningum hans ætti það að ganga hundrað þúsund skref að brenna 4500 hitaeiningum.

Veðrið var slæmt þegar að Fischbach ákvað að ganga þessa löngu vegalengd og því þurfti hann að næla sér í þessi skref innan dyra. En þegar hann var búinn með sextíu þúsund skref gerði hann „hræðileg mistök“ – hann tók sér pásu.

„Fæturnir mínir hættu að virka um leið og ég lagðist niður,“ segir hann. „Vöðvarnir bara gáfu sig.“

Og rétt sí svona var áskorunin búin og Fischbach náði aðeins tæplega sjötíu þúsund skrefum. En hann reyndi allavega.