Þetta er án efa ein einfaldasta uppskriftin í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, og fullkomin fyrir Bounty elskendur.

Bara þrjú hráefni! Já, ég sagði ÞRJÚ HRÁEFNI.

Þetta er jú einu sinni uppskrift að Bounty sem þú getur barasta búið til heima! Hve fullkomið?

Í þessa uppskrift nota ég sæta dósamjólk, sweetened condensed milk, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og lesendur bloggsins hafa eflaust tekið eftir.

Það má að sjálfsögðu móta Bounty-ið að vild, til dæmis í litlar kúlur eða sæta kodda.

Útlitið skiptir ekki öllu – en bragðið gerir það!

Heimagert Bounty

Hráefni:

200g kókosmjöl
1dós sæt dósamjólk (sweetened condensed milk – 397 g)
200g dökkt súkkulaði

Leiðbeiningar:

Blandið kókosmjöli og mjólkinni vel saman. Mótið síðan litlar, nú eða stórar) lengjur úr blöndunni og raðið lengjunum á plötu eða disk sem búið er að klæða með smjörpappír. Setjið plötuna eða diskinn inn í ísskáp og kælið í um klukkustund.

Bræðið súkkulaðið en þið getið auðvitað notað mjólkursúkkulaði ef þið viljið. Hér finnst mér best að dýfa toppinum á Bounty-inu í súkkulaðið, setja lengjuna aftur á smjörpappír og leyfa toppinum að storkna. Síðan að dýfa botninum í súkkulaði og leyfa súkkulaðinu aftur að storkna. Þið getið auðvitað súkkulaðihúðað Bounty-ið eins og þið viljið. Skiptir svo sem litlu máli hvernig þetta lítur út því bragðið er aðalmálið. Og bragðið er gott!

Ljósmyndari: Sunna Gautadóttir