Forsetakosningar fara fram á morgun, laugardaginn 27. júní, og eru tveir í framboði eins og kunnugt er, þeir Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, og Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur.

Hverjir mega kjósa?

Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri og eru með skráð lögheimili á Íslandi eru á kjörskrá. Kjörskrá miðast við skráð lögheimili í sveitarfélagi eins og það er í þjóðskrá þremur vikum fyrir kjördag eða 6. júní 2020.

Íslenskir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili í útlöndum skemur en 8 ár frá 1. desember 2019 geta kosið í forsetakosningum 2020. Þeir sem hafa átt lögheimili í útlöndum lengur en í 8 ár verða að sækja um að vera teknir á kjörskrá fyrir 1. desember 2019 til þess að öðlast kosningarétt fyrir forsetakosningarnar 2020.

Erlendir ríkisborgarar eiga ekki kosningarrétt við kjör forseta Íslands. Eina undantekningin eru danskir ríkisborgarar, sem voru búsettir á Íslandi 6. mars 1946 eða einhvern tíma á síðustu 10 árum fyrir þann tíma. Þeir eiga kosningarrétt samkvæmt lögum nr. 85/1946.

Hvar á að kjósa?

Á vef Þjóðskrár Íslands geta þeir sem eru á kjörskrá slegið inn kennitöluna sína og athugað hvar þeir eigi að kjósa.

Hvernig kýs ég?

Þeir sem mæta á kjörstað þurfa að framvísa skilríkjum þegar þangað er komið. Rita skal X fyrir framan nafn þess frambjóðenda sem fólk vill kjósa. Það má ekki skrifa neitt annað á kjörseðilinn eða breyta honum á einhvern hátt. Síðan á að brjóta kjörseðilinn í sama brot og hann var í þegar kjósandi tók við honum þannig að letrið snúi inn. Kjörseðillinn er lagður í kassa fyrir utan kjörklefann og skal kjósandi gæta þess að enginn sjái hvernig hann greiddi atkvæði. Bannað er að taka myndir af kjörseðli.

Hér fyrir neðan má horfa á leiðbeiningar um hvernig skal kjósa:

Hér má nálgast leiðbeiningar á ensku:

Get ég fengið hjálp við að kjósa?

Í kjörklefanum er spjald með blindraletri með upphleyptu nafni hvers frambjóðanda. Þá getur kjósandi fengið aðstoð frá einum úr kjörstjórn við að kjósa.

Verða kosningavökur?

Nei, hvorugur frambjóðandi verður með kosningavöku í skugga heimsfaraldurs COVID-19. Fylgst verður með gangi mála á kjördag hjá fréttastofum Stöðvar 2 og RÚV.