Fréttateymi þáttarins Inside Edition ákváð að heimsækja nokkur lúxushótel á Manhattan í New York og athuga hreinlætið í skugga heimsfaraldurs COVID-19, en faraldurinn hefur leikið Bandaríkin sérstaklega grátt.

Teymið notaði sérstakt sprey sem sést aðeins í útfjólubláu ljósi og spreyjaði lógó þáttarins á sængurfötin. Þá var spreyið einnig notað á fleti sem eru mikið notaðir á hótelherbergjum, svo sem á skrifborði, fjarstýringu og inni á baðherbergi.

Niðurstöðurnar eru sláandi, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Herbergin eru ekki vel þrifin, þrátt fyrir að heimsfaraldur geysi, og ekki skipt á sængurfötum á milli daga.