Eldhúsið er lifandi staður á mörgum heimilum og mikið eldað, spjallað og hlegið. Þessu mikla lífi fylgja óhreinindi sem mörgum fallast hendur við að þrífa.

Þegar kemur að eldhússkápunum þá sest alls kyns fita og óhreindi ofan á þeim, utan á þeim og innan í þeim sem er frekar ólystugt. En það er ekkert sérstaklega mikið mál að þrífa skápana ef maður gefur sér smá tíma.

Það þarf ekki dýr hreinsiefni til að ráðast á skápana. Besta leiðin er að bæta smá uppþvottalegi í spreybrúsa með volgu vatni. Síðan er blöndunni spreyjað á fituga bletti. Gott er að leyfa sápuvatninu aðeins að liggja á blettunum, bara í nokkrar sekúndur, og þurrka síðan vel af skápunum með hreinni, rakri tusku.

Þó hér sé sérstaklega talað um skápa gildir þetta að sjálfsögðu líka um skúffur og aðra fleti eldhússins.