Saga þessi gerðist á ofanverðri síðustu öld, nánar tiltekið 21. ágúst 1983.

Tvær systur, önnur nýorðin 8 ára og hin að verða 7, höfðu frétt að til stæði að hlaupa með heilsufrömuðinum Noel Johnson frá Fellahelli og niður á Lækjartorg. Þar átti að veita öllum keppendum verðlaun: bol, blómafrævla, pylsu og drykk. Systurnar, sem voru miklir íþróttagarpar, sem léku sér úti frá morgni til kvölds allt heila sumarið urðu ofurspenntar að taka þátt og treystu sér fullkomlega að vinna þetta afrek.

Móðir þeirra, sem komst alls ekki með þar sem hún átti eina stúlku enn á fyrsta ári en gat ekki neitað þeim um hlaupið, hafði samband við systkini sín, þau 2 yngstu, og bað þau að hlaupa með stúlkunum. Það var auðsótt mál og saman gengu þessi 4 fræknu út að Fellahelli, þar sem mikill mannfjöldi hafði safnast saman á þessum merkilega góðviðrisdegi.

Segir nú ekki af ferðum þeirra fyrr en rúmum klukkutíma síðar er hringt er dyrabjöllu á heimili þeirra. Mamman fer til dyra og úti stendur eldri dóttirin hágrátandi og miður sín, sagðist hafa týnt frændfólkinu og systur sinni á hlaupunum. Skildist móðurinni að hún hefði verið komin að Sprengisandi þegar hún ákvað að snúa við, þjökuð af áhyggjum af yngri systur sinni og frænda og frænku.

Nú voru góð ráð dýr, engin leið að hafa samband, þá voru nefnilega ekki gemsar eða önnur fjarskiptatæki föst við fólk á hlaupum. Móðirin var að vonum áhyggjufull en stúlkan 8 ára fór að lesa og gleymdi sínum áhyggjum um stund, enda var hún að lesa 5 fræknu sem voru afar spennandi bækur.

Leið nú og beið til klukkan að verða 6. Var þá aftur hringt bjöllunni og úti stóð yngri stúlkan með frænda og frænku sigri hrósandi og uppgefin í bol forkunnarfögrum, með fullan poka af blómafrævlatöflum, sem voru síðar kallaðar ógeðstöflur á heimilinu, og pylsu og drykk í maganum. Mamman vildi nú heyra ferðasöguna, sem var auðsótt mál. Stúlkan sagðist fljótlega hafa týnt samferðafólkinu en hélt áfram að hlaupa. Þegar hún var komin sennilega á Klambratún settist hún niður alveg uppgefin og orðin dálítið vonlaus, allir hlaupararnir farnir og hún vissi þar að auki ekki alveg í hvaða átt Lækjartorg var. Kom þá til hennar kona sem spurði hvað amaði að og stúlkan sagði konunni alla söguna og spurði hana hvar Lækjartorg væri. Konan benti þá í áttina að torginu og spurði svo hvort hún ætti ekki að keyra hana þangað. „Nei,“ sagði stúlkan, „ég verð að hlaupa alla leið svo ég fái bol og pylsu og kók.“

Konan kvaddi þá og upp stóð stúlkan og hljóp áfram orðin nokkuð vongóð á ný.

Er skemmst frá því að segja að þegar hún kom loksins á torgið sá hún strax móðursystkini sín, sem biðu, orðin afskaplega áhyggjufull. Þau voru með bolinn og blómafrævlana en pylsurnar voru búnar, en það var snarlega farið á Bæjarins bestu og keypt pylsa og kók handa stúlkunni, sem aldrei hvorki fyrr né síðar hefur fengið jafn góða pylsu. Var svo haldið heim á leið, stúlkan fór strax í bolinn, hann var nokkrum númerum of stór og entist þess vegna enn lengur. Hún gekk í honum fram á fullorðinsár eða þangað til að hann var orðinn alveg gegnsær, efnið í honum var nefnilega þannig að ekki komu göt, hann bara þynntist og þynntist, já þvílíkur bolur alltaf jafn skjannahvítur með grænum og bláum stöfum sem ég man ekki hvaða orð mynduðu.

Það var þreytt og ánægð stúlka sem sofnaði vært þetta kvöld og allir hlutaðeigendur voru afskaplega þakklátir fyrir hve ævintýrið endaði vel. Þetta var fyrsta hlaup stúlkunnar en ekki það síðasta. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum hlaupum hérlendis og erlendis og kemst alltaf í mark á ágætum tíma. Hún hleypur kanski ekki hraðast af öllum en hún gefst ekki upp hvað sem á bjátar, þá sest hún niðu , hugsar málið og heldur svo ótrauð áfram. Eða eins og einhver spök persóna sagði:

„Svona eiga sýslumenn að vera.“