Emily Barratt er 36 ára kona frá Manchester sem hefur undanfarið dundað sér við að taka gamla kirkju í gegn og breyta henni í heimili. Hún hefur leyft fólki að fylgjast með ferlinu á Instagram, en í viðtali við LatestDeals.co.uk fer hún yfir ótrúlega umbreytingu á einu af baðherberginu í húsinu.

Emily átti tæplega þrjú hundruð þúsund til að umbreyta frekar litlausu baðherbergi, en hönnun á herberginu er innblásin af frasanum Drama Llama, sem þýðir einfaldlega mjög dramatísk manneskja.

Svona leit baðherbergið út.

„Vinir mínir eru með mig vistaða í símanum undir nafninu Drama Llama því drama virðist elta mig,“ segir Emily í samtali við vefsíðuna. „Það var klárlega kominn tími á nýtt baðherbergi niðri. Gamla baðherbergið var örugglega búið að vera eins í tuttugu ár og í því var sturtubotn en engin sturta, sem var sóun á plássi.“

Sturtubotn án sturtu.

Litríkt og brjálað

Emily ákvað að hafa smá gaman í þessu verkefni.

„Ég vissi að ég vildi litríkt og brjálað baðherbergi því þetta er eina rýmið í húsinu þar sem maður má vera svolítið flippaður,“ segir hún. „Ég elska litasamsetninguna bleikur og grænn. Ég var búin að sjá nokkur baðherbergi í þessum litum þannig að ég ákvað að fara þessa leið.“

Pastel paradís.

Emily vildi hafa þemað létt og ljóst og tókst vel upp, eins og sést á myndunum. Veggirnir eru myntugrænir og gólfflísarnar bleikar. Emily tók sig til og gerði mikið sjálf og náði að klára verkefnið á fjórum vikum. Hún lagði til að mynda flísarnar sjálf og bjó til ýmsa skrautmuni.

Draumur.

„Ég þurfti að greiða pípara til að færa vaskinn, skipta út klósettinu og sparsla veggina eftir að ég fjarlægði gömlu veggflísarnar, en annað gerði ég sjálf.“

Venjulegum skápi breytt í vaskaskáp.

Vaskaskápurinn er í raun bara venjulegur skápur sem Emily breytti til að koma fyrir vaski. Bleiki vaskurinn var með því dýrasta sem hún splæsti í, en hann kostaði tæplega tuttugu þúsund krónur. Emily átti stigann sem sést á myndunum og málaði hann til að passa inn í þemað. Hangandi blómapottinn bjó hún til sjálf og ljósakrónuna keypti hún á um átta þúsund krónur.

Ljósakrónan.

„Ég er rosalega ánægð með útkomuna,“ segir Emily. „Ef þið viljið umbreyta baðherbergi fyrir svipaðan pening þá skulið þið bara slá til. Kannið málið og athugið hvort þið eigið eitthvað á heimilinu sem hægt er að gefa nýtt líf til að halda kostnaði í lágmarki.“

Skemmtilegt þema.