Russell Jones hefur nýverið öðlast heimsfrægð eftir að hann birti myndband af sér og hundinum sínum Bill á Facebook. Á aðeins nokkrum dögum var myndbandinu deilt um þrjátíu þúsund sinnum og hefur myndbandið brætt hjörtu um heim allan.

Russell slasaðist nýverið og fékk gips á annan fótinn. Stuttu síðar byrjaði hundurinn hans Bill að haltra og Russell fór með hann til dýralæknis. Russell eyddi um fimmtíu þúsund krónum í alls kyns rannsóknir og röntgenmyndatöku til að komast að meini hundsins.

Þegar uppi var staðið sagði dýralæknirinn að það væri alls ekkert að Bill. Bill haltraði því hann væri að herma eftir göngulagi eiganda síns til að sýna samúð sína.

Það er alþekkt að dýr api eftir öðrum dýrum en hundar láta ekki þar við sitja heldur apa einnig eftir manneskjum til að sýna stuðning í verki, jafnvel þó athæfið sé óþægilegt fyrir þá – eins og að haltra um í marga daga.

Myndbandið fræga má sjá hér fyrir neðan: