Bretinn Shaff Prabatani og hin danska Lou Thulin Simonsen felldu hugi saman árið 2008, en þau kynntust á netinu. Samband þeirra var sterkt og ástin heit. Þann 12. ágúst í fyrra ákváðu þau að láta pússa sig saman umkringd ástvinum sínum, þar á meðal dætrum sínum Alia, tíu ára og Hannah, átta ára. Það var þó eitt sem skyggði á stóra daginn – Lou var með heilaæxli og lést aðeins fimmtán mínútum eftir að hún játaðist Shaff.

Nú hefur Shaff fundið leið til að heiðra minningu eiginkonu sinnar. Hann hefur búið til lítið bókasafn í hennar nafni.

„Lou sagði alltaf að lestur færði hana í annan heim – jafnvel þegar hún var sem veikust. Hún vildi að allir myndu lesa meira. Dætur okkar elska að lesa líka og húsið okkar er fullt af bókum. Litla bókasafnið er fullkomin leið til að heiðra minningu Lou,“ segir Shaff í samtali við breska blaðið Metro.

Lou er frá Álaborg í Danmörku en flutti til Englands árið 2006. Shaff og Lou gengu í það heilaga í Álaborg en Shaff segir að Lou hafi ekki viljað fara yfir móðuna miklu fyrr en þau væru hjón.

„Ég trúi vanalega ekki á svona hluti en ég held að hún hafi látið sig hafa það svo hún gæti gifst áður en hún dó. Þetta var loforð sem ég gaf henni og hún lét mig standa við það. Þó hún sé ekki lengur meðal vor þá bjó ég til bókasafnið því ég er staðráðinn í að halda minningu hennar á lofti.“

Shaff ásamt dætrum sínum tveimur. Mynd: Twitter

Eitt til tvö ár ólifað

Sumarið 2018, rétt eftir að Lou og Shaff fögnuðu tíu ára sambandsafmæli, fann Lou fyrir fyrstu einkennum heilaæxlisins sem dró hana að lokum til dauða.

„Hún fékk hræðilega höfuðverki yfir daginn,“ segir Shaff. „Nokkrum vikum síðar fann hún fyrir sjóntruflunum. Hún fór til augnlæknir og læknis og hvorugur hafði áhyggjur í fyrstu. En þegar að október kom var henni stanslaust flökurt og sjónin hennar var orðin svo slæm að hún gat ekki einu sinni séð afmæliskerti með stórum tölustaf á.“

Lou leitaði til heimilislæknis síðar sama mánuð og var hún sett á biðlista hjá taugasérfræðingi. Hún hafði misst vinkonu úr heilaæxli ári áður og vildi ekki bíða eftir tímanum. Því leitaði hún á sjúkrahús í London og heimtaði skoðun.

„Hún sagði oft: Ég held að ég sé með heilaæxli. Heimilislæknirinn hélt að þetta væru streitueinkenni en ég var viss um að hún væri með mígreni,“ segir Shaff. Svo fór að Lou fór í sneiðmyndatöku og þá var grunur hennar staðfestur. Tveimur vikum seinna var henni sagt að hún ætti eitt til tvö ár ólifað.

„Við föðmuðumst og grétum“

Fallegt bókasafn. Mynd: Twitter.

Lou byrjaði strax í geislameðferð og á sterkum lyfjum. Áður en Lou var greind með heilaæxli var parið ekki sammála um hjónaband. Shaff sá ekki tilganginn með að ganga í hjónaband á meðan Lou vildi ólm gera það.

„Í janúar árið 2019 fór ég með hana til Brighton í Austur-Sussex yfir nótt. Okkur leið alltaf vel þar. Ég sagði henni að velja demantshring, hvaða hring sem hún vildi. Lou vildi ekki íburðarmikinn hring og að lokum fundum við rósademant í antíkbúð, sem lét lítið fyrir sér fara, eins og hún. Þetta kvöld pantaði ég mat í herbergisþjónustu, fór á skeljarnar, sagðist elska hana og að ég vildi að hún væri eiginkona mín. Við föðmuðumst og grétum. Hún vildi giftast þegar hún væri búin að hafa betur í baráttunni við krabbameinið. Hún var það sannfærð að hún myndi lifa af.“

Lou lauk geislameðferð í janúar í fyrra og þá kom vonarglæta. Segulómun sýndi að æxlið hefði ekki vaxið en krabbameinið og meðferðin hafði leikið Lou grátt. Hún átti erfitt með að hreyfa sig og tala. Lou og Shaff, ásamt dætrunum tveimur, heimsóttu vini og ættingja Lou í Álaborg í ágúst í fyrra. Þá var Lou bundin við hjólastól og þau Shaff ákváðu að láta pússa sig saman.

„Hún gat ekki meðtekið að hún væri dauðvona,“ segir Shaff. „Við höfðum aðeins viku til að skipuleggja brúðkaupið og áttum fallegan dag í nærliggjandi firði.“

Eins og áður segir lést Lou fimmtán mínútum eftir vígsluna. Tveimur vikum síðar var hún lögð til hinstu hvílu í fjölskyldugrafreitinum. Nú lifir minning hennar í litla bókasafninu.

„Bókasafnið er fallegt, í lítillátum skáp í skandinavískum stíl í limgerðinu þar sem fólk getur fengið bækur lánaðar,“ segir Shaff. „Við vonum að litla bókasafnið hennar Lou muni veita fólki innblástur til að ná sér í bók og upplifa töfra lestursins.“

Nóg að skoða. Mynd: Twitter.