Heimur Vanessu Bryant snerist á hvolf þann 26. janúar í fyrra þegar að eiginmaður hennar, körfuboltagoðsögnin Kobe Bryant, og þrettán ára dóttir þeirra, Gianna, oftast kölluð Gigi, létu lífið í þyrluslysi. Allt í einu var allt breytt í lífi Vanessu og opnar hún sig um sorgina, lífið og leiðina út úr myrkrinu í viðtali við tímaritið People.

„Ég get ekki sagt að ég sé sterk á hverjum degi,“ segir hún. „Ég get ekki sagt að það komi ekki dagar þar sem mér líður eins og ég geti ekki lifað fram á næsta dag.“

Heimsbyggðin syrgði Kobe og var fjallað um þyrluslysið dag eftir dag í fjölmiðlum. Vanessa reyndi hins vegar að einbeita sér að því að byggja sjálfa sig upp aftur og hugsa um hinar dætur þeirra þrjár; Nataliu, 18 ára, Biönku, 4 ára og Capri, 20 mánaða. Meðal þess sem Vanessa gerði var að vinna. Hún tók við fyrirtækinu Granity Studios sem Kobe stofnaði og endurvakti góðgerðarsamtök körfuboltastjörnunnar heitnu sem vinna nú að því að veita ungu íþróttafólki frá efnaminni heimilum tækifæri og valdefla ungar stúlkur.

Gigi og Kobe á góðri stundu.

Vanessa neitaði að láta sorgina yfirbuga sig og reyndi það sem hún gat til að vera staðar fyrir dætur sínar.

„Það er ekki hægt að ímynda sér svona sársauka en maður verður bara að standa á fætur og halda áfram. Þó ég liggi í rúminu og gráti breytir það því ekki að fjölskyldan mín verður aldrei söm á ný. En ef ég fer fram úr rúminu og held áfram þá get ég gert daginn betri fyrir stelpurnar mínar og mig. Þannig að ég geri það,“ segir hún. „Stelpurnar mínar hjálpa mér að brosa í gegnum tárin. Þær gefa mér styrk.“

Vanessa reynir ávallt að sjá ljósið í myrkrinu og sækir mikinn innblástur frá Kobe og Gigi, þó þau séu ekki lengur á meðal vor.

„Ætli sé ekki best að segja það sem svo að Kobe og Gigi veita mér innblástur til að halda áfram. Þau veita mér innblástur til að leggja meira á mig og verða betri á degi hverjum. Ástin þeirra er skilyrðislaus og þau hvetja mig áfram á svo marga, mismunandi vegu.“

Falleg fjölskyldumynd. Gigi hvílir hendur sínar á öxlum föður síns.

Brot úr viðtali við People við Vanessu má lesa hér.