Hvað er betra en að gera pönnukökur um helgar? Fátt!

Hér kemur enn ein uppskriftin úr bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, en mér telst til að uppskriftirnar í þeirri bók telji hátt í sjötuíu.

Það var sem fyrr hún yndislega Sunna Gautadóttir sem tók myndina, eins og allar myndir í bókinni, og verð ég henni ævinlega þakklát fyrir.

Njótið helgarinnar!

Ekta amerískar pönnukökur

Hráefni:

2 bollar hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 bolli sykur
1 tsk salt
2 bollar súrmjólk
2 stór egg
55 g brætt smjör
1/2 bolli súkkulaðibitar (má sleppa)

Leiðbeiningar:

Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda, sykri og salti saman í skál og búið til holu í miðjunni. Blandið súrmjólk, eggjum og smjöri saman í skál og hellið í holuna. Gott er að þeyta deigið í leiðinni þar til það er slétt og fellt – algjörlega kekkjalaust. Blandið súkkulaðibitum varlega saman við með sleif eða sleikju. Hitið pönnu yfir meðalhita og spreyið bökunarspreyi á hana. Hellið smá deigi á pönnuna og steikið í 2–3 mínútur á hvorri hlið. Það er algjörlega sturlað að bera þessar fram volgar með smjöri og hlynsírópi.