Hin árlegu Emmy-verðlaun, þau 72. í röðinni, fóru fram á stafrænan hátt í nótt. Það var spjallþáttakóngurinn Jimmy Kimmel sem fjarstjórnaði hátíðinni í Staples Center í Los Angeles.

Sá háttur var á hátíðinni í ár að verðlaunahafar voru heima hjá sér og tóku við verðlaunum heima í stofu, eða á þeim stað sem þeir kusu að halda upp á hátíðina. Var gripið til þessara ráðstafana vegna heimsfaraldurs COVID-19 sem er í örum vexti um heim allan. Sjónvarpsþættirnir Schitt’s Creek, Succession og Watchmen voru sigurvegarar hátíðarinnar en Schitt’s Creek setti met á hátíðinni með því að hreppa alls níu verðlaun, eitthvað sem engum gamanþætti hefur tekist áður.

Kimmel fékk hins vegar nokkra vel valda aðila til að hjálpa sér í Staples Center, þar á meðal leikkonuna Jennifer Aniston. Aniston átti að veita verðlaun fyrir bestan leik kvenna í aðalhlutverki, sem fór til Catherine O’Hara fyrir fyrrnendan Schitt’s Creek, en áður en hún gat gert það ákvað Kimmel að kveikja í umslaginu sem innihélt upplýsingar um vinningshafa. Tók Kimmel upp á þessu til að „sótthreinsa“ umslagið.

„Þetta er svolítið ýkt,“ sagði Aniston áður en hún greip slökkvitæki og slökkti í umslaginu. Klárlega einn af hápunktunum á frekar einkennilegri verðlaunahátíð, en atriðið má sjá hér fyrir neðan.