Þeir sem voru upp á sitt besta á fyrsta áratug þessarar aldar muna eflaust eftir vafasama tískutrendinu sem fólst í því að vera í afar lágum gallabuxum og láta sjást í G-strenginn, eða þvenginn.

Þessi tíska er eflaust best geymd í minningum margra, en nú hefur raunveruleikastjarnan og frumkvöðullinn Kim Kardashian West lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að endurvekja þessa tískustefnu.

Kim birtir nokkrar myndir af sér á Instagram í kjól úr smiðju tískuhússins Givenchy, sem vinur hennar Matthew Williams hannaði. Kjóllinn er opinn í bakið og eldrauður G-strengur saumaður við hann. Já, þvengurinn er saumaður við kjólinn sem er sérstaklega hannaður til að láta þvenginn sjást.

Myndirnar sem Kim birtir hafa valdið talsverðu fjaðrafoki. Þó einhverjir telji kjólinn vera stórgóðan þá eru ansi margir sem grátbiðja Kim í athugasemdum að láta vera að ýta undir þennan tískustraum fortíðar.

En tískan fer í hringi og væntanlega lítið sem hægt er að gera til að stöðva endurkomu sýnilega G-strengsins.