Í byrjun árs 2019 varð Belginn Ruben Vanheen fyrir hræðilegri reynslu þar sem hann var staddur á ferðalagi í Medellin í Kólumbíu. Eftir að hafa verið blekktur á stefnumót var hann numinn á brott af glæpagengi sem síðan rændi hann. Honum tókst að flýja af vettvangi en telja má víst að mennirnir hefðu annars ráðið honum bana.

Hann þurfti að takast á við áfallastreituröskun í kjölfar atviksins en það var þá sem hann uppgötvaði sund í köldu vatni og hinn magnaða lækningamátt sem því fylgir. Sú iðja hefur notið síaukinna vinsælda undanfarin ár en Ruben kom fljótlega auga á ýmiskonar hindranir þegar kom að iðkun á sportinu. Eitt af því sem hann tók eftir var að þegar kom að hefðbundnum sundfatnaði og sundfatnaði sem ætlaður er atvinnuíþróttafólki þá hafði myndast einhverskonar gat á markaðnum. Til að mynda var enginn sundfatnaður í boði sem bauð upp á geymslu eða einhverskonar hólf fyrir farsíma.
Í kjölfarið ákvað Ruben að hann myndi sjálfur setja slíka vörulínu á markað, sundfatnað sem væri smekklegur og með mikið notagildi og á sama tíma endingargóður og á viðráðanlegu verði. Í kjölfarið fæddist ICEWIM.

Sívaxandi vinsældir

Almennur áhugi á sjósundi og sjóböðum, sem og kuldaþjálfun hefur stóraukist hér á landi undanfarin ár. Það sama er uppi á teningnum víða erlendis. Svokallað „wild swimming“, eða sund í náttúrulaugum, ám, stöðuvötnum og sjó nýtur sívaxandi vinsælda og þá ekki síst eftir að kórónuveirufaraldurinn leiddi til lokana á almenningssundlaugum og líkamsræktarstöðvum.

Engill Bjartur Einisson, rithöfundur, ljóðskáld og áhrifavaldur flýtur í vatninu.

Eitt af því sem ýtt hefur undir þessar miklu vinsældir er aðferðafræði Hollendingsins Wim Hof, en Hof er einnig þekktur sem „ísmaðurinn“. Með hinni svokölluðu Wim Hof aðferð er kuldaþol aukið með öndun og andlegri tækni og tenging við náttúruna spilar stóran þátt. Sjálfur segir Ruben að saga Wim Hof hafa veitt sér mikinn innblástur við stofnun ICEWIM.

Ruben segist ekki hafa farið varhluta af áhrifum þess að synda í köldu vatni, en eftir atvikið skelfilega í Kólumbíu þjáðist hann af svæsnu þunglyndi og síendurteknum kvíðaköstum. Þegar hann stakk sér í fyrsta sinn til sund í ísköldu vatni upplifði hann einhverskonar óútskýrða sæluvímu, tilfinningu sem var ekki ósvipuð þeirri sem hann upplifði þegar hann slapp frá glæpagenginu. Þar með var ekki aftur snúið, og Ruben ákvað að búa sér til lífsviðurværi út frá þessari nýju ástríðu.

Ruben segir að með ICEWIM vilji hann gera þessa íþrótt aðgengilega fyrir alla, og á sama tíma bjóða hentugar lausnir á þeim vandamálum sem fylgt geta iðkuninni. Þá sé honum annt um að gera hverjum sem er kleift að prófa sig áfram og kynnast íþróttinni á öruggan og þægilegan hátt. Hann vilji því fyrst og fremst einblína á þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í sportinu og eru óvanir kuldanum. Hann bendir á að hefðbundin sundfatnaður sé ekki hentugur fyrir lágt hitastig. Sundfatnaður sem hannaður er fyrir atvinnufólk og kafara er afar dýr og það sama gildir um þurrbúninga, sem þar að auki eru frekar ætlaðir brimbrettaiðkendum. Þá blasir sama spurningin við öllum þeim sem stunda sund og böð úti í náttúrunni: „Hvar á ég eiginlega geyma símann, lyklana og fötin mín?“

Einangrun gegn kulda

ICEWIM vörulínan samanstendur af sundbuxum fyrir karla, sundbolum fyrir konur og sérhönnuðum fjölnota poka sem heldur öllum búnaði eða fötum þurrum. Til að mynda er hægt að nota pokann sem bakpoka þar sem á honum eru axlarólar sem hægt er að festa á og losa af að vild. Þá er einnig hægt að nota pokann sem flotholt auk þess sem á honum er endurskin sem veitir öryggi í myrki. Á sundbuxunum og á sundbolnum er áfastur vasi þar sem hægt er að geyma síma en meðfylgjandi vatnsþétt plasthulstur fyrir símann gerir viðkomandi kleift að snerta skjáinn, hringja, taka við símtölum eða taka ljósmyndir á meðan svamlað er í vatninu eða sjónum.

Engill Bjartur og Dagbjört koma upp úr vatninu.

Sundfatnaðurinn er úr 3mm efni, svokölluðu Yulex gúmmíefni en það er talið bæði umhverfisvænna og endingarbetra heldur en hið svokallaða neoprene efni sem oftast er notað í framleiðslu á sundfatnaði. Ruben bendir á að efnið viðhaldi hitastigi líkamans og einangri sérstaklega vel gegn kulda. Þá flýtur það einnig betur en önnur efni og veitir því aukið öryggi.

Ruben bætir við að sundfatnaðurinn sé hentugur fyrir allar aðstæður, eins og hér á Íslandi, þar sem veðrið er eins óútreiknanlegt og hugsast getur.

Hann segir að hann hafi ekki eingöngu viljað búa til sundfatnað sem væri töff og fallegur fyrir augað, hann vildi líka leggja upp með nýsköpun þegar kom að efni. Eitt af því sem gerir sundfatnaðinn frábrugðinn öðrum er að efnið breytir um lit eftir hitastigi: komist efnið í snertingu við vatn undir 12 gráðum þá breytist liturinn úr gráum í dökkbláan.

Tökur á Íslandi

Ruben hefur fengið til liðs við sig fjölbreyttan hóp til að gera ICEWIM að veruleika og um miðjan janúar næstkomandi er fyrirhugað að hrinda af stað hópfjármögnun svo hægt sé að hefja framleiðsluferlið.

Dagbjört Rúriksdóttir söngkona, lagahöfundur, fyrirsæta og samfélagsmiðlastjarna og Engill Bjartur Einisson, rithöfundur, ljóðskáld og áhrifavaldur koma fram í kynningarmyndbandi fyrirtækisins sem tekið var upp á Þingvöllum um síðastliðna helgi. Leikstjóri myndbandsins, Kamila Walijewska er meðlimur í sjósundshópi sem stofnaður var innan pólska samfélagsins í Reykjavík og ber heitið Zimnolubni („Fólk sem kann vel við kulda.“) Hópurinn kemur saman þrisvar sinnum í viku og stingur sér ofan í vatnið.

Ruben segir Íslandsdvölina hafa veitt sér innblástur fyrir frekari þróun á vörumerkinu en hann hefur notað tímann og kynnt sér samfélagið sem myndast hefur í kringum sjósund hér á landi. Hann telur ekki ólíklegt að Íslendingar sæki í sportið vegna jákvæðra áhrifa á andlega heilsu, svo ekki sé minnst á félagslega þáttinn.

„Þegar líkaminn er kominn ofan í kalt vatn þá reynir hann að spara eins mikla orku og hægt er, til að þess að lifa af. Það að hugsa, og hafa áhyggjur tekur mikla orku frá okkur, og þess vegna stöðvast hugsunin á meðan við erum ofan í köldu vatninu. Þar af leiðandi upplifir fólk ákveðin hugleiðsluáhrif.“

Ruben ólst upp í Belgíu og kannast sjálfur við skammdegisþunglyndi, sem hrjáir ófáa Íslendinga yfir vetrartímann. Hann bendir á að hvergi þurfi að fara langt til að finna sjó, á, vatn eða jafnvel tjörn til að synda í, og það sé í fullkomnu lagi að stinga sér út í. „Jafnvel þó að það sé smávegis klaki.“

Þeir sem vilja forvitnast meira um ICEWIM er bent á heimasíðu fyrirtækisins. Þar gefst einnig kostur á því að styðja við fjármögnunarherferðina og fá um leið 30 prósent afslátt af fyrstu pöntun.