Carole Baskin varð heimsfræg þegar að heimildarþættirnir Tiger King slógu í gegn á Netflix fyrr á þessu ári. Meðal þess sem vakti hvað mesta athygli varðandi Baskin í þáttunum var dularfullt hvarf eiginmanns hennar, Don Lewis, í ágúst árið 1997. Í myndinni sakaði tígrisdýrakóngurinn sjálfur, Joe Exotic, Baskin um að koma manni sínum fyrir kattarnef, en hann var úrskurðaður látinn árið 2002 þó líkið hefði aldrei fundist.

Raunveruleikaþátturinn Dancing With the Stars hóf göngu sína í Bandaríkjunum í gærkvöldi og meðal keppenda í þessari seríu er fyrrnefnd Baskin. Baskin var trú vörumerki sínu og dansaði pasadoble í dýramynsturskjól við lagið Eye of the Tiger, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Vermir neðsta sætið

Fjölskylda hins horfna eiginmanns hennar kom hins vegar aftan að henni og birti auglýsingu í auglýsingahléi þáttarins þar sem þrjár dætur Don Lewis, fyrrverandi aðstoðarkona hans og lögfræðingur báðu almenning um hjálp við að leysa þetta gamla mannshvarf.

„Don Lewis hvarf á dularfullan hátt árið 1997. Fjölskylda hans á skilið svör, hún á skilið réttlæti. Vitið þið hver ber ábyrgð á þessu eða hvort Carole Baskin á hlut að máli,“ spyr lögfræðingurinn John M. Phillips í auglýsingunni. Fjölskyldan býður hundrað þúsund dollara í verðlaun þeim sem getur veitt upplýsingar um málið.

Baskin hefur staðfastlega neitað þeim ásökunum að hún beri ábyrgð á hvarfi Don Lewis. Þá samþykktu hún að taka þátt í Dancing With the Stars, þar sem B-lista stjörnur dansa með atvinnudönsurum, til að bæta ímynd sína, en henni fannst illa að sér vegið í heimildarþáttunum Tiger King. Vinsældir þáttanna urðu til þess að lögreglan í Hillsborough-sýslu í Tampa í Flórída hefur hafið rannsókn á hvarfi Don Lewis á nýjan leik.

Baskin er ekki paránægð með að auglýsingin hafi farið í loftið í þann mund sem hún þreytti frumraun sína í dansþættinum, en að hennar sögn fékk hún að vita um auglýsinguna tíu mínútum áður en hún steig á dansgólfið. Hún virtist hins vegar skemmta sér vel á gólfinu, þó það hafi ekki endurspeglast í stigum dómaranna, en Baskin og dansfélagi hennar, Pasha, fengu ellefu stig fyrir sveifluna og lentu í neðsta sæti.