Það er alltaf stutt í grínið hjá tónlistarmanninum Friðriki Ómari Hjörleifssyni. Nú undir kvöld deildi hann ansi spaugilegri sögu af kynnum sínum við tvo unga drengi í verslun Hagkaupa á Akureyri. Friðrik Ómar gaf Fréttanetinu leyfi til að endurbirta gamansöguna, svo fleiri geti notið hennar og hlegið.

Sagan hljóðar svo:

„Ég má til með að deila með ykkur skemmtilegu atviki sem ég upplifði í Hagkaup á Akureyri í gær. Tveir snáðar, ca. 10 ára voru búnir að veita mér þó nokkra eftirför um búðina og voru svona að mana hvorn annan upp í það að heilsa upp á mig. Eftir þó nokkra stund spyr annar þeirra:

Gaur1: Heitir þú Páll Óskar?
Ég: Neinei. Ég heiti Friðrik.
Gaur2: Syngur þú „Í síðasta skipti“?
Ég: Neinei.
Gaur1: Hvað heitiru þá?
Ég: Friðrik Ómar.
Gaur2: Hver er það?
Ég: Ég.
Gaur2: Ó.

Og þar með lauk okkar samskiptum og ég áttaði mig á því að ég er ekki búinn að meika það ennþá.“