Tónlistarmaðurinn og frumkvöðullinn Little Richard er látinn, 87 ára að aldri. BBC segir frá en fjölskylda tónlistarmannsins staðfestir andlátið í samtali við blaðamann.

Meðal smella úr smiðju Little Richard eru meðal annars Good Golly Miss Molly, Tutti Frutti og Long Tall Sally. Bítlarnir, Elton John og Elvis vitna allir í hann sem einni helsti áhrifavald.

Little Richard fæddist í Georgíu í Bandaríkjunum og hét fullu nafni Richard Wayne Penniman. Hann var meðal þeirra fyrstu sem fengu inngöngi í Rock and Roll Hall of Fame árið 1986.

Sviðsframkoma, rám rödd og skrautlegir búningar voru einkennismerki Little Richard, sem hefur selt meira en þrjátíu milljónir platna á heimsvísu. Frægðarsól hans skein skærust á sjötta áratug síðustu aldar.

Athyglissjúkur

Little Richard var einn af tólf systkinum og sagði í viðtali við BBC Radio 4 árið 2008 að hann hafi hafið söngferilinn til að skara fram úr á stóru heimili.

„Ég var með stærsta egóið og ég er enn með stærsta egóið,“ sagði hann. „Ég gerði þetta því ég þráði athygli. Ég fékk athygli þegar ég glamraði á píanóið og öskraði og söng.“

Á tímum þar sem enn var mikil aðskilnaður á milli kynþátta í Bandaríkjunum náði Little Richard að fanga hug og hjörtu bæði svartra og hvítra. Á tónleikum hans í Bandaríkjunum þurfti að strengja reipi yfir salinn á milli þeldökkra og hvítra.

Ferskur blær

Í raun hafði dægurmálatónlist aldrei átt stjörnu eins og Little Richard þegar hann kom á sjónarsviðið. Hann var ólíkur öllum öðrum tónlistarmönnum á þessum tíma og ef hann hefði ekki verið athyglissjúkur og meikað það hefði heimurinn líklegast aldrei kynnst tónlistarfólki á borð við Bob Dylan, David Bowie og Jimi Hendrix, þar sem hann var mikill áhrifavaldur í þeirra lífi. Hann var sem ferskur blær inn í tónlistarsenu síns tíma.

Little Richard var meðal örfárra Bandaríkjamanna sem blandaði saman blús, R&B og gospel sem leiddi til þess að rokk og ról varð til á sjöunda áratug síðustu aldar.

„Pabbi minn seldi viskí. Heimabruggað viskí“

Little Richard fæddist eins og áður segir í Georgíu, nánar til tekið í Macon, þann 5. desember árið 1932. Hann saug í sig gospeltónlist og allt sem henni fylgdi og bætti henni við brjálaða píanótóna. Faðir hans var prestur sem rak einnig næturklúbb og móðir hans tilheyrði babtistakirkjunni.

„Ég fæddist í fátækrahverfi. Pabbi minn seldi viskí. Heimabruggað viskí,“ sagði Little Richard í samtali við Rolling Stone árið 1970. Tónlistarmanninum sinnaðist við föður sinn á táningsárunum, með þeim afleiðingum að Little Richard flutti að heiman. Föður hans líkaði ekki tónlistin, sem átti síðar eftir að gera son hans heimsfrægan.

„Pabbi minn vildi sjö stráka og ég skemmdi það því ég var hommi,“ sagði Little Richard eitt sinn um samband sitt við föður sinn.

Trúin og samkynhneigðin

Það var í raun aldrei neitt launungarmál að Little Richard væri samkynhneigður, en hann var einnig í samböndum með konum. Hann kynntist Ernestine Harvin í október árið 1957 og gengur þau í það heilaga tveimur árum síðar. Saman ættleiddu þau son. Þau skildu árið 1964. Little Richard kenndi kynhneigð sinni um að upp úr sambandinu flosnaði.

Þegar að frægðin bankaði að dyrum fylgdu henni ýmsir fylgifiskar – svo sem fíkniefna- og áfengisneysla. Þá stundaði Little Richard að sækja kynlífspartí og tók Biblíuna sína með í teitin. Seint á sjötta áratugnum varð hann fyrir uppljómun á sviði í Sydney í Ástralíu. Hann sá „eldknött“ fljúga yfir himininn, sem var í raunar Sputnik 1 gervihnötturinn á leið aftur til jarðar. Little Richard skildi þetta hins vegar sem teikn frá Guði að hann ætti að snúa baki við tónlist og tileinka sér betri lífsstíl. Sem hann og gerði.

Hann skráði sig í Biblíuskóla í Alabama. Ekki leið á löngu þar til hann var rekinn úr skólanum vegna ásakana um að hann hefði flassað aðra nemendur. Nokkrum árum seinna fór hann aftur á tónleikaferðalag. En þegar að bróðir hans Tony lést úr kókaínneyslu stuttu síðar sneri Little Richard sér aftur að trúnni og varð prestur árið 1970. Hann lét skíra sig aftur og afneitaði samkynhneigð sinni, sagði það hafa verið tímabundið val. Hann var hins vegar mikils metinn í röðum hinsegin fólks.

Braut niður múra

Little Richard taldi áhrif sína á tónlistarstefnur og aðra tónlistarmenn aldrei metna að fullu og kenndi kynþáttafordómum í Bandaríkjunum um. Hann var ávallt mjög stoltur af því að hjálpa til í baráttu við aðskilnað svartra og hvítra.

„Rokk og ról brýtur niður kynþáttamúra,“ sagði tónlistarmaðurinn eitt sinn í viðtali. „Aðdáendum var alveg sama þó ég væri svartur. Það var góð tilfinning.“

Margar goðsagnir minnast Little Richard á Twitter