Ég fann þessa æðislegu uppskrift á vef Good Housekeeping og bara varð að deila henni með ykkur. Þegar ég prófaði hana notaði ég úrbeinað lærakjöt á grillið og var ekki illa svikin. Ég mæli líka með að grilla nokkrar kartöflur með þessu og jafnvel bjóða upp á gott Aioli með.

Njótið!

Grillaður kjúklingur og hrásalat

Hráefni:

8 litlir kjúklingabitar
salt og pipar
1 læm
3 msk kókosmjólk
1 tsk sykur
1/2 tsk fiskisósa
450 g rauðkál, skorið þunnt
2 vorlaukar, skornir þunnt
1/4 bolli kóríander

Aðferð:

Hitið grillið og stillið það á meðalháan hita. Saltið og piprið kjúklinginn og skellið honum á grillið. Grillið í nokkrar mínútur og snúið svo við og grillið þar til kjúklingurinn er klár. Á meðan rífið þið börkinn af læm í litla skál og setjið til hliðar. Síðan kreistið þið 1 matskeið af læmsafa í stóra skál. Blandið kókosmjólk, sykri og fiskisósu saman við. Þeytið þar til sykurinn leysist upp. Blandið síðan káli og lauk saman við. Stráið læmberkinum yfir kjúklinginn um leið og hann kemur af grillinu. Stráið kóríander yfir hrásalatið og berið fram.