Tony Sander segir sögu sína í nýjum þætti af YouTube-seríunni Brand New Me. Árið 2016 keyrði hann út af þegar hann var að keyra heim fullur. Hann slasaðist á hné og læknarnir sögðu að þeir gætu ekki skorið hann upp því hann væri of þungur. Þá var Tony tæp 200 kíló.

Tony segir að þetta hafi verið botninn sem hann hefði þurft að finna og hóf hann mikla lífsstílsbreytingu. Það fyrsta sem hann gerði var að hætta að drekka áfengi og breyta um mataræði.

„Markmiðið mitt frá byrjun var að bjarga lífinu mínu,“ segir Tony.

Nú eru um fjögur ár liðin frá þessum örlagaríka degi og hefur Tony náð að losa sig við tæplega hundrað kíló með því að æfa með einkaþjálfaranum Keith og fara eftir mjög ströngu mataræði. Með hreyfingu nær hann betri tökum á streitu og kvíða og þarf ekki að borða og drekka tilfinningar sínar.

„Níutíu mínútur í ræktinni er mín huggun. Það er skrifstofan mín. Það er minn tími,“ segir hann.

„Ég þurfti að sætta mig við sjálfan mig til að geta breytt mér andlega og líkamlega. Ég þurfti að sætta mig við fíknina mína. Hugarfarslegu breytingarnar hafa verið mun meiri en þær líkamlegu.“

Tony gefur áhorfendum einnig góð ráð til að ná markmiðum sínum.

„Byrjaðu í dag. Þú þarft ekki að bíða þangað til á morgun. Þú þarft ekki að vera með skothelt plan. Það er fólk þarna úti sem vill hjálpa. Það er fólk þarna úti sem hefur gert þetta og það vill hjálpa öðru fólki að ná árangri.“