Flest tilvik af COVID-19 hafa greinst í Bandaríkjunum, eða rúmlega 2,6 milljónir tilvika. Tæplega 130 þúsund manns hafa látist úr sjúkdómnum þar í landi. Meðal þeirra látnu eru hjónin Curtis og Betty Tarpley frá Texas.

Tarpley-hjónin höfðu verið gift í 53 ár en Betty var áttræð þegar hún lést og Curtis 79 ára. Betty sýndi einkenni á undan eiginmanni sínum en þau eyddu síðustu stundum sínum saman og héldust í hendur á dánarbeðinu. Minna en klukkustund leið á milli andláta þeirra.

Tim Tarpley, sonur hjónanna, opnar sig um andlát foreldra sinna í viðtali við NBC DFW.

„Maður þarf ekki að horfa upp á annað hvort þeirra syrgja eða vera leið því þau fóru á sama tíma,“ segir sonurinn. „Ég held að það sé gott.“

Tim rifjar upp stundina þegar hann skutlaði foreldrum sínum á sjúkrahúsið.

Hjónin á brúðkaupsdaginn.

„Þetta var svo sorglegt. Þau fóru út úr bílnum með göngugrindurnar sínar við gangstéttina og þurftu að ganga sjálf inn á bráðamóttökuna og síðan sá ég þau ekki aftur,“ segir Tim. Hann gat hins vegar komið skilaboðum til móður sinnar með því að senda henni smáskilaboð.

„Ég sagði henni að hún væri frábær mamma en að hún yrði enn betri engill.“

Tæplega 4300 tilvik af COVID-19 greindust í Texas á mánudaginn en í heildina hafa um 153 þúsund Texas-búar greinst með sjúkdóminn og rúmlega 2400 látist.

Frétt um andlát Tarpley-hjónanna má horfa á hér fyrir neðan: