Sturtuvenjur fólks eru afar mismunandi eins og við erum mörg, en á vefsíðunni Yahoo Life er að finna ítarlega grein um hversu oft er best að fara í sturtu og hvernig maður eigi að þvo sér til að fara sem best með húðina. Það er nefnilega hægt að þvo sér of mikið, nota vörur sem skaða húðina og fara í sturtu á kolvitlausum tíma.

Hægt að fara of oft í sturtu

Þó það sé algjörlega dásamlegt að skella sér í heita sturtu, sérstaklega þegar að kalt er í veðri, þá er raunin sú að það er vel hægt að fara of oft í sturtu. Ef við förum of oft í sturtu gætum við „ofhreinsað“ líkamann sem gerir það að verkum að húðin tapar náttúrulegu olíunum sem gerir hana svona stórkostlega.

„Húðin er mjög klók,“ segir Claire Logan, húðumhirðusérfræðingur hjá ARRAN Sense of Scotland í samtali við Yahoo Life. „Hún hreinsar sig sjálf og heldur sér heilbrigðri með lagi af náttúrulegum olíum á yfirborðinu. Ef þú ferð of oft í sturtu hefur það slæm áhrif á PH-gildi húðarinnar og hún tapar sinni náttúrulegu vörn,“ bætir hún við.

En hve oft á maður að fara í sturtu?

„Ein sturta á dag er meira en nóg til að passa upp á hreinlæti,“ segir Claire. „Sumir sérfræðingar mæla meira að segja með því að fara í sturtu annan hvern dag, allt eftir því hve virkt fólk er. En ef þú heldur þig við aðeins eina sturtu á dag ættirðu að finna mun á húðinni. Til að passa upp á þetta ættirðu til dæmis ekki að fara í sturtu að morgni til ef þú ætlar í ræktina eftir vinnu.“

Morgunsturtan ekki besta hugmyndin þín

Það skiptir einnig máli á hvaða tíma dags þú ferð í sturtu. Það þarf nefnilega ekki að vera best að byrja hvern dag á slakandi sturtu eins og svo margir kjósa sér. Samkvæmt rannsókn sem húðlæknirinn Simon Zokai stóð fyrir er nefnilega miklu betra að fara í sturtu rétt fyrir svefninn. Kvöldsturtan nefnilega hreinsar þig af deginum ef svo má segja því hún skolar í burtu óhreinindum, sýklum og mengun sem húðin hefur tekið í sig yfir daginn. Ef þú bíður til næsta dags með sturtuna liggja óhreinindin á þér á meðan þú sefur og svitaholurnar draga þau í sig. Þetta getur haft slæm áhrif á húðina til lengri tíma sem birtast meðal annars í roða og ýmsum húðvandamálum.

Árstíðirnar og veðurfar hefur einnig áhrif á sturtuvenjur okkar og nauðsynlegt að breyta um venjur í takt við tíðina.

„Húðin þolir verr vetrarhörkur. Ef við þvoum okkur of mikið þegar að vetrarvindar blása getur það leitt til þess að húðin verður enn þurrari en vanalega,“ segir fyrrnefnd Claire Logan.

Þá er ekki heldur mælt með að fara í sjóðandi heita sturtu og stíga svo beint úr henni í kalt herbergi þar sem hitamisræmið getur haft skelfileg áhrif á húðina.

„Yfir sumartímann gætirðu þurft að fara oftar í sturtu ef hitastigið er hátt, sérstaklega ef þú æfir mikið eða ert í annasamari vinnu. Sturta fyrir svefninn er góð fyrir þá sem þjást af frjókornaofnæmi því sturtan gæti skolað af frjókornin,“ bætir Claire við.

Skrúbburinn óþarfur

Claire heldur áfram og snýr sér nú að stöðunum sem við ættum að þvo með sápu, ef við notum hana yfir höfuð. Hún mælir með því að þvo allan líkamann með sápu aðeins einu sinni eða tvisvar á viku. Í daglegu sturtunni má nota sápu, en aðeins á svæði þar sem eru svitakirtlar eða þar sem bakteríur geta safnast saman, til dæmis í handakrikanum eða klofinu.

„Þetta snýst um að leyfa húðinni að sinna sínu náttúrulega hlutverki,“ segir Claire. „Þeir sem eru með bólur á bakinu eða á öðrum svæðum líkamans er ekkert verra en að sápuþvo þessi svæði of mikið því þá þorna þau upp enn meira.“

Margir nota sturtuna til að skrúbba líkamann hátt og lágt með alls kyns húðvörum eða olíum til að losna við dauðar húðfrumur. Claire segir hins vegar að það sé ekki nauðsynlegt að skrúbba í gríð og erg. Hún býður samt upp á góð ráð fyrir þá sem vilja endilega munda skrúbbinn.

„Reynið að nota skrúbb sem er mjúkur og náttúrulegur, fremur en skrúbb með hrjúft yfirborð,“ segir hún. „Vinnið á húðinni með hringlaga hreyfingum og byrjið niðri og færið ykkur upp að hjartanu fyrir góða hreinsun.“

Þá bætir hún við að matarsódi, fínmalaður sykur, kaffikorgur, fínmalaðar möndlur, haframjöl og sjávarsalt sé allt gott til að skrúbba með.

Þá víkur sögunni að hitastigi sturtunnar. Rannsókn sem var framkvæmd af fyrirtækinu Mira Showers í Bretlandi leiddi í ljós að 43 prósent Breta spá ekkert í hitastiginu þegar þeir sturta sig. Það er hins vegar mjög mikilvægt að gera það.

Kaldar sturtur auka blóðflæði og endurheimt vöðva en heitar sturtur slaka á vöðvum og opna svitaholur. En þegar við beinum sviðsljósinu eingöngu að húðinni er heit sturta besta meðalið, nánar tiltekið 36°C heit.

„Þumalputtareglan er að lækka hitann ef húðin er orðin rauð,“ segir Claire.

Róleg á handklæðinu

Þegar maður gengur svo úr sturtunni er auðvitað mikilvægt að þurrka sér. Það gæti hins vegar haft sína kosti að þurrka sér ekki alveg.

„Við getum haldið rakanum inni í húðinni ef við berum á okkur rakakrem þegar að húðin er þvöl. Þurrkið ykkur því aðeins og berið svo á ykkur krem,“ segir Claire en bætir við að viðkvæm svæði ætti að þurrka alveg til að forðast sýkingar. „Og leyfðu rakanum að smjúga inn í húðina og húðinni að þorna alveg áður en þú klæðir þig,“ bætir hún við.

Margir kannast við að lúslesa hráefni í mat til að forðast óholl efni en það er alveg jafn mikilvægt að skoða hráefnalista húðvara.

„Veldu náttúrulegar vörur sem innihalda ilmkjarnaolíur fremur en önnur efni,“ mælir Claire með. Hún leggur til sápu með haframjöli eða hveitigerlum til að skrúbba með þar sem þær vörur skrúbba í burt dauðum húðfrumum án þess að vera of harðar fyrir húðina.

„Notið sápur sem gera gott fyrir húðina og vernda hana. Það þarf ekki að vera sturtusápa. Sápustykki eru að koma aftur í tísku og eru sum hver góð fyrir húðina, ólíkt staðalímyndinni sem um stykkin ríkja.“