Draugabanarnir Katrín Bjarkadóttir og Stefán John stjórna hlaðvarpsþættinum Draugasögur, sem lesendur Fréttanetsins ættu að þekkja. Katrín og Stefán hafa heimsótt ýmis draugahús og -kennileiti um allan heim, en fyrir viku síðan létu þau læsa sig inni í Höfða í tólf klukkustundir.

Katrín og Stefán sýna frá dvölinni inni á hlaðvarpssíðu sinni og fullyrða að þau hafi staðfest að draugagangur sé í Höfða. Í gegnum tíðina hefur því oft verið fleygt fram að draugagangur sé í húsinu, en er þetta líklegast í fyrsta sinn sem einhver telur sig hafa sannanir um tilvist hins yfirskilvitlega í húsinu.

Skjáskot af einu af myndböndunum úr Höfða. Mynd: Skjáskot / Vimeo / Draugasögur.

Höfði var reistur árið 1909 og var í fyrstu íbúðarhús fyrir franska konsúlinn á Íslandi. Um tíma bjó skáldið Einar Benediktsson í húsinu og einhverjir hafa fullyrt að draugagangurinn tengist honum á einhvern hátt. Um miðja síðustu öld fór að bera mikið á draugagangi í Höfða en það má segja að Höfðadraugurinn hafi orðið heimsfrægur þegar að þeir Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, áttu fund í Höfða árið 1986. Muna eflaust margir eftir Áramótaskaupinu það árið þar sem draugar spiluðu stórt hlutverk í Höfða.

„Við náðum ótrúlegum sönnunargögnum af reimleika í þessu sögufræga húsi,“ segir Stefán John dulur og vill ekki ljóstra neinu öðru upp um þær sannanir. Þær séu eingöngu fyrir áskrifendur Draugasagna. Hann segist ekki í vafa um að Höfðadraugurinn sé til eftir að þau Katrín tóku upp samræður við fólk sem er farið yfir móðuna miklu.

„Utanríkisráðuneytið gaf út þá yfirlýsingu á sínum tíma að hvorki væri hægt að neita né staðfesta að það væri draugagangur í Höfða. Í dag árið 2020 getum við teymið staðfest og sannað að það sé í raun draugagangur í Höfða. Það er ekki á hverjum degi sem maður tekur viðtal við einhvern sem hefur verið dáinn í 130 ár,“ segir Stefán John.

Hægt er að gerast áskrifandi að Draugasögum og sannfærast um draugagang í Höfða með því að smella hér.