Þessa uppskrift fann ég á vefsíðunni Cast Iron Keto og fyrir mér er þetta hinn fullkomni réttur þegar að kaldur haustvindurinn blæs. Ég elska allt í þessum rétti, enda mikil taco kona, og ég vona að þið elskið hann líka.

Ketó taco tryllingur

Hráefni:

1 msk. lárperuolía
450 g nautahakk
½ laukur, smátt skorinn
½ paprika, smátt skorin
100 g grænn chili
3 msk. taco krydd
2 tómatar, skornir í teninga
340 g blómkál, skorið smátt líkt og hrísgrjón
1 bolli rifinn ostur
1 lárpera, skorin í teninga
jalapeño
sýrður rjómi
kóríander

Aðferð:

Hitið olíu í stórri pönnu yfir meðalhita. Bætið hakkinu út í og eldið þar til það brúnast. Bætið lauk, papriku og taco kryddi saman við og steikið í 3 mínútur til viðbótar. Hrærið chili og tómötum saman við, sem og blómkálshrísgrjónunum. Eldið í 5 til 7 mínútur þar til mestur vökvi hefur gufað upp. Dreifið osti yfir og setjið lok á pönnuna. Eldið í 2 mínútur, eða þar til ostur hefur bráðnað. Takið af hellunni og skreyið með lárperu, jalapeño, sýrðum rjóma, kóríander eða hverju sem er. Berið strax fram.