Marengs með Snickers – verður það eitthvað betra?! Nei, held ekki.

Og til að gera þennan marengs aðeins dýrðlegri en hann er í einfaldleika sínum þá bætti ég við súkkulaðirjóma til að færa hann upp á æðra svið í þessari tilveru.

Ég hef nú þegar farið yfir marengsreglurnar með ykkur og því um að gera að dusta rykið af þeim og hlaða í þessa stórkostlegu sykur- og eggjadásemd. Þið sjáið ekki eftir því!

Sjá einnig:

Átta ráð sem tryggja fullkomna marengstertu

Marengs með Snickers og súkkulaðirjóma

Hráefni:

4 eggjahvítur
1 bolli sykur
2 tsk lyftiduft
500 ml rjómi
2 msk kakó
3 msk flórsykur
4 Snickers
60 g dökkt súkkulaði
2 msk hnetusmjör

Leiðbeiningar:

Hitið ofninn í 150°C og klæðið ofnplötur með bökunarpappír. Þeytið eggjahvíturnar í 1 til 2 mínútur eða þangað til þær freyða vel. Bætið sykrinum út í eggjahvíturnar á meðan þið hrærið, sirka einni matskeið í einu. Þeytið þessa blöndu í 15 til 20 mínútur eða þar til þið getið haldið skálinni á hvolfi og ekki dropi lekur niður. Bætið lyftiduftinu við og hrærið aðeins. Setjið sirka eina matskeið af blöndunni á ofnplöturnar með góðu millibili. Þið ættuð að fá 12 til 14 kökur. Bakið í 30 mínútur og leyfið kökunum að kólna í ofninum í um það bil tvo klukkutíma. Þeytið rjómann og bætið kakói og flórsykri saman við þegar þið eruð alveg að verða búin að þeyta rjómann. Skellið góðri slummu af rjómanum á marengskökurnar. Skerið Snickers-stykkin í litla bita og dreifið þeim ofan á rjómann. Bræðið súkkulaðið og drissið því yfir marengsinn. Bræðið hnetusmjörið í um það bil 30 sekúndur í örbylgjuofni og drissið því yfir marengsinn.