Jackie Stallone, móðir leikarans Sylvester Stallone er látin, 98 ára að aldri. Auk leikarans skilur Jackie eftir sig eiginmanninn Stephen Levine, soninn Frank Stallone, sjö ömmubörn og þrjú langömmubörn. Auk bræðranna tveggja eignaðist Jackie dótturina Toni Ann, sem lést árið 2012.

Frank Stallone segir frá harmafregnunum í Facebook-færslu.

„Hún var ótrúleg kona sem hreyfði sig á hverjum degi, óttalaus og hugrökk,“ skrifar Frank.

„Hún lést í svefni eins og hún óskaði. Það var erfitt að líka ekki vel við hana, hún var sérvitur og skrautleg manneskja. Hún fæddist þann 29. nóvember árið 1921 í Washington DC. Hún lifði bannárin, kreppuna miklu og seinni heimsstyrjöldina. Ég gat talað við hana svo klukkustundum skipti um þriðja, fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Það var sögukennsla. Hugur hennar var hárbeittur þar til hún dó.“

Jackie var skrautleg manneskja.

Frank fer fögrum orðum um bróður sinn, Sylvester í færslunni.

„Bróðir minn Sylvester hugsaði um hana líkt og drottningu allt hennar líf,“ skrifar hann og endar pistilinn á hugljúfum nótum.

„Ég mun aldrei geta hringt í móður mína aftur eða heyrt hana hrópa á mig því ég hef aldrei gengið í hjónaband. En við elskuðum hana öll og andi hennar lifir. Ég mun ávallt sakna þín mamma.“

Jackie var hreystin uppmáluð og var með eigin sjónvarpsþátt um hreyfingu. Hún opnaði einnig líkamsræktarstöð fyrir konur, Barbella’s á sínum yngri árum. Á tíunda áratug síðustu aldar var hún hvað þekktust fyrir stjörnuspeki og gaf út nokkrar bækur um spekina og hélt úti stjörnuspekiþjónustu í gegnum síma.

Hún var tíður gestur í spjallþáttum og keppti í raunveruleikaþættinum Celebrity Big Brother í Bretlandi árið 2005.

This morning my brothers and I lost our mother Jackie Stallone . She was the mother to four children, Tommy, Sylvester,…

Posted by Frank Stallone Official on Monday, September 21, 2020