Því miður var Eurovision ekki haldið í ár vegna COVID-19, en strax í mars var tekin ákvörðun um að aflýsa keppninni, sem hefði átt að fara fram í Rotterdam í Hollandi um miðjan mái. Við ættum samt að geta upplifað smá Eurovision fiðring í sumar þökk sé kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.

David Dobkin, sem leikstýrði til dæmis Wedding Crashers og Shanghai Knights, leikstýrir myndinni sem er skrifuð af stórleikaranum Will Ferrell og Andrew Steele.

Myndir fjallar um íslenska tónlistarfólkið Lars Ericksson og Sigrit Ericksdottir, sem eru leikin af fyrrnefndum Farrell og Rachel McAdams. Lars og Sigrit eru í hjómsveitinni Fire Saga, eða Eldsaga (höskuldarviðvörun: þetta er ekki gott band) og fá þau boð um að taka þátt í Eurovision fyrir hönd Íslendinga. Þar fá þau tækifæri að sanna sig á stóra sviðinu en fjöldi íslenskra leikara kemur fram í myndinni, meðal annars Nína Dögg Filippusdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ólafur Darri Ólafsson, Björn Hlynur Haraldsson, Jóhann G. Jóhannsson og fjölmargir aðrir. James Bond-sjarmörinn Pierce Brosnan fer einnig með hlutverk þannig að það má búast við sumarsmelli. Og ef myndin kitlar ekki hláturtaugarnar er þetta allavega fínasta landkynning fyrir Ísland.

Kvikmyndin verður frumsýnd þann 26. júní næstkomandi á Netflix, en hér fyrir neðan má sjá fyrstu stikluna:

Hér má sjá lagið sem er sent inn fyrir Íslands hönd í myndinni. Kannski ættum við að senda Daða og Eldsöguna á næsta ári?