Já, ég segi í hollari kantinum því þessar eru ekki beint meinhollar, en samt hollari en það sem ég baka vanalega.

Stundum er fínt að fara aðeins út úr boxinum og baka úr einhverju öðru en maður er vanur. Í þessari uppskrift nota ég kókossykur, heilhveiti og kókosolíu.

Ég var hreinlega ekki viss um hvort þessar kökur yrðu eitthvað spes en viti menn – þær eru æði! Ég mæli þúsund prósent með þessum dúllum og það er rosalega auðvelt að henda þeim saman.

Góðar kókos- og súkkulaðistundir.

Súkkulaðibitakökur

Hráefni:

3/4 bolli heilhveiti
1 bolli haframjöl
3/4 tsk lyftiduft
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 bolli kókosolía (brædd)
1/2 bolli kókossykur
1 egg (þeytt)
1 tsk vanilludropar
2 msk mjólk að eigin vali
1/2 bolli sykurlaust súkkulaði (saxað)
1/4 bolli möndlur (saxaðar)

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C og setjið smjörpappír á tvær ofnplötur. Blandið hveiti, haframjöli, lyftidufti og sjávarsalti vel saman í stórri skál. Blandið olíu, sykri, eggi og vanilludropum saman í annarri skál og blandið því síðan saman við hveitiblönduna. Bætið mjólkinni saman við. Blandið súkkulaði og möndlum saman við með sleif eða sleikju. Búið til litlar kúlur úr deiginu og raðið á ofnplöturnar. Bakið í 12 til 14 mínútur og leyfið að kólna í 10 mínútur eða svo áður en þær eru borðaðar.