Ég ætla bara að byrja á því að segja að þessi Snickers-kaka er alls, alls, alls ekki fyrir þá sem eru að forðast sykur, hveiti, mjólkurvörur og allt hitt sem alltaf er verið að segja okkur að sé svo svakalega óhollt.

Nafnið á þessari syndsamlega góðu sjúkheitaköku er kannski örlítið villandi, þar sem það er ekki neitt Snickers í henni, en kakan sjálf er í raun eins og eitt risastórt Snickers-stykki – með eplum.

Ég sem sagt endurgeri í þessari köku þetta súkkulaðistykki sem fólk annað hvort elskar að hata. Þannig að hér erum við að tala um fullt af salthnetum, fullt af karamellu, fullt af núggati og fullt af súkkulaði. Þetta bara getur alls ekki klikkað!

Sjá einnig: Snickers-eplakaka

Ég bakaði þessa köku fyrir barnaafmæli sem systir mín hélt, og þó að ég vissi að hún væri sturluð þá óraði mig samt ekki fyrir þessum svakalegu viðbrögðum sem hún fékk. Ég hafði hugsað mér að skera fallega sneið til að taka mynd af svo þið sæjuð dásemdina inní kökunni, en ég bara komst ekki að. Kakan kláraðist upp til agna og engri náði ég mynd. En ég býst við að þið getið séð þetta fyrir ykkur þegar þið lesið uppskriftina.

Þetta er kaka sem mig er búið að dreyma um (grínlaust) síðan ég bakaði hana og ég hlakka svo til að baka hana aftur. Mig hefur um þónokkra hríð dreymt um að opna mitt eigið bakarí, með fáum en útvöldum sortum, og þetta er klárlega ein af sortunum sem kæmist á þennan stutta lista. Hún er bara það góð!

Þannig að, ég mæli með því að þið hendið í þessa elsku um helgina, eða bara hvenær sem er. Vissulega þarf hún smá nostur, eins og allar kökur sem eru settar saman úr nokkrum mismunandi elementum, en framkvæmdin er alls ekkert flókin þó hún sé tímafrek. Og auðvitað er þessi Snickers-kaka algjörlega biðarinnar og fyrirhafnarinnar virði!

Snickers-um okkur í gang.

Svaðaleg Snickers-kaka

Hráefni – Botn:

3/4 bolli salthnetur
1 bolli hveiti
2 msk púðursykur
1/2 tsk sjávarsalt
115 g kalt smjör (skorið í teninga)
smá vatn (ef þarf)

Hráefni – Epli:

4 meðalstór epli (afhýdd og skorin í teninga)
2 msk smjör
1/2 msk ferskur sítrónusafi

Hráefni – Hnetukaramella:

1 bolli sykur
6 msk smjör
1/2 bolli rjómi
1 tsk sjávarsalt
1 bolli salthnetur

Hráefni – Núggat:

1 dós Marshmallow Fluff (Sykurpúðakrem)
1 bolli flórsykur
1/4 bolli hnetusmjör

Hráefni – Súkkulaðitoppur:

170 g mjólkursúkkulaði
1 msk hnetusmjör (kúffull)

Leiðbeiningar – Botn:

Hitið ofninn í 175°C og takið til hringlaga form, sirka 22 sentímetra stórt. Smyrjið það lauslega með smjöri eða bökunarspreyi. Setjið salthnetur í matvinnsluvél og malið þar til þær líkjast mjöli. Blandið síðan hveiti, púðursykri og salti vel saman við. Brytjið smjörið út í hveitilbönduna og vinnið smjörið í deigið með höndunum. Þetta tekur smá tíma en útkoman ætti að vera fallegt og massívt deig. Ef það er of þurrt má bæta smá ísköldu vatni saman við, en bara einni matskeið í einu. Þrýstið deiginu í botninn og upp hliðarnar á forminu og setjið í frysti í um tíu mínútur. Nú, eða lengur ef ekki er von á gestum alveg strax. Setjið smjör- eða álpappír ofan á botninn og smellið einhverju þungu ofan á sem þolir hitann í ofninum. Margir eiga sérstök baksturslóð til þess, en ég nota bara nokkur, lítil kökuform, sem ég þyngi með til dæmis hrísgrjónum. Þetta er gert svo botninn blási ekki út. Bakið botninn svona í tuttugu mínútur. Takið síðan smjör- eða álpappírinn af, sem og lóðin, og bakið í 10 til 15 mínútur til viðbótar. Leyfið botninum alveg að kólna áður en einhverju er skellt á hann.

Leiðbeiningar – Epli:

Bræðið smjör á pönnu við meðalhita. Steikið síðan eplin í 5 til 7 mínútur, eða þar til þau eru mjúk. Takið pönnuna af hellunni og blandið sítrónusafanum saman við. Leyfið eplunum að kólna áður en þeim er dreift yfir botninn.

Leiðbeiningar – Hnetukaramella:

Bræðið sykur á pönnu yfir meðalhita og hrærið stanslaust í honum. Fyrst mun hann verða að kögglum og síðan bráðna í ljósbrúna blöndu. Þegar sykurinn er bráðnaður bætið þið smjörinu út í og hrærið áfram stanslaust. Passið ykkur því blandan mun bubbla og láta illa þegar smjörið snertir sykurinn. Hrærið þar til allt smjörið er bráðnað og búið að blandast saman við sykurinn. Hér er gott að nota písk. Hellið síðan rjómanum varlega út í á meðan þið hrærið en blandan mun aftur láta illa. Leyfið þessu að sjóða í um 1 mínútu en haldið áfram að hræra stanslaust. Takið pönnuna af hellunni og blandið salthnetum og salti saman við. Hellið sósunni í skál og leyfið henni að ná stofuhita. Hellilð henni síðan yfir eplin og kælið herlegheitin í ísskáp í um hálftíma.

Leiðbeiningar – Núggat:

Blandið öllum hráefnunum vel saman í skál þar til blandan helst vel saman, en er örlítið klístruð. Dreifið núggatinu jafnt yfir karamellusósuna og setjið inní ísskáp á meðan súkkulaðibráðin er búin til.

Leiðbeiningar – Súkkulaðitoppur:

Setjið súkkulaði og hnetusmjör saman í skál sem þolir örbylgjuofn. Hitið þetta í þrjátíu sekúndur í einu og hrærið á milli þar til allt er bráðnað og blandað saman. Hellið súkkulaðitoppinum yfir núggatið og skreytið jafnvel með söxuðum salthnetum og karamellukurli. Nammi, nammi, namm!