Maí er yfirleitt dásamlegur tími. Vorið heilsar og kyssir okkur blítt á nefbroddinn með ljúfum og hlýjum sólargeislum. Fuglarnir bjóða góðan dag með ómfögrum fuglasöng. Grasið grænkar og gróðurinn vaknar til lífs eftir langan dvala.

Þessi tími í maí einkennist yfirleitt af gleði, tilhlökkun, spennu og eftirvæntingu. Á þessum tíma læt ég mig yfirleitt dreyma um hið ómögulega og spennist öll upp. En í stað allra þessa unaðslegu tilfinninga sem heltaka líkama minn er maí nú litaður af vonbrigðum, depurð, tómleika og brostnum vonum. Hugsunum um það sem hefði geta orðið.

Það hefur myndast tómarúm í hjarta mínu. Tómarúm sem ég hef reynt mitt besta að fylla. Ég hef reynt að vera meira úti við, reynt að hafa meira fyrir stafni, reynt að vera hress og skemmtileg fyrir börnin mín, dansað á stofugólfinu, prumpað út í vindinn og sprungið úr hlátri. Ég næ samt ekki að fylla þetta tómarúm. Það æpir á mig. Togar í mig. Þó ég horfi í hina áttina og neita því um athygli þá dregur það mig aftur inn.

Maí hefur því verið óvenju tárvotur þó rigninguna hafi vantað. Ég stend mig að því á öllum mögulegum og ómögulegum tími að fella nokkur tár er ég hugsa um það sem hefði geta orðið. Það sem átti að gerast. Og alsæluna sem átti að fylgja í kjölfarið.

Í kvöld eru allar líkur á, og eiginlega ómögulegt annað, en að hann Daði Freyr okkar og Gagnamagnið hefði staðið á stóra sviðinu í Eurovision-keppninni í Rotterdam í Hollandi. Daði Freyr og félagar hefðu líklegast fengið að flytja smellinn sinn á besta tíma, til að hámarka atkvæðasmölun. Evrópa hefði lagt frá sér snakkskálina, lokað klósettinu og fylgst með agndofa. Fólk hefði byrjað að dilla sér, syngja með, reynt að apa eftir dansinn. Krakkarnir hefðu skríkt af gleði. Ég hefði fengið gæsahúð, tárast, brosað og hlegið. Síðan hefði ég klappað því flutningur þeirra hefði verið óaðfinnanlegur. Salurinn hefði klappað svo mikið að kynnarnir hefðu þurft að sussa í þeim. „Meira, meira, meira,“ hefði heyrst í höllinni og legið við uppþoti. Í lok kvölds, þegar að stigin hefðu loksins verið lesin upp, hefðum við heyrt lítið annað en „Iceland, 12 points.“ „Douze points!“ Ég hefði öskrað, grátið og hoppað. Ég hefði klipið mig því mér liði líkt og ég væri í draumi. Alla ævi hefði ég beðið eftir þessari stundu. Svo hefði það gerst. Síðustu stigin lesin upp. „And the winner of Eurovision 2020 is… Think About Things!“ Nú hefðu flóðgáttirnar opnast. Nú hefði ég enga stjórn lengur. Þessi stund yrði í móðu. Var þetta í alvörunni að gerast? Já! Ísland vann! Ísland vann! Ísland vann! Geðshræring hefði yfirtekið mig. Ég væri á hennar valdi núna. Ég hefði enga stjórn á líkamanum, enga stjórn á hljóðunum sem ég gæfi frá mér. Og loksins gæti ég hætt að hata Charlotte Nilsson fyrir að stela sigrinum af Selmu!

Um það bil svona hefði kvöldið orðið. Þetta hefði orðið eitt besta kvöld lífs míns. En það verður ekki. Þetta verður bara eins og hvert annað laugardagskvöld.

Daði Freyr og Gagnamagnið hafa farið sigurför um Evrópu og unnið hverja gervikeppnina á fætur annarri. Það gerir þetta enn sárara. Ef við hefðum sent minni spámenn sem okkar fulltrúa í ár væri svekkelsið minna. En í ár áttum við raunverulega mjög mikla möguleika á að vinna. Auðvitað samgleðst ég með Daða og hans velgengni en í hvert sinn sem hann vinnur gervikeppni sekk ég dýpra og dýpra ofan í svarthol Eurovision-depurðar.

Það er alþekkt heilkenni sem heitir PED, Post Eurovision Depression, eða þunglyndi í kjölfar Eurovision-keppni. Það er að sjálfsögðu notað í gríni en á að túlka tilfinninguna þegar að Eurovision-keppnin er búin og lífið verður aftur venjulegt. Þegar að glimmerið, gleðin og stuðið er búið og grár hversdagsleikinn tekur við. Nú hef ég upplifað þetta ástand, sérstaklega eftir að ég fór út á keppnina í Stokkhólmi árið 2016, en þessi tilfinning á ekki roð í tómarúmið í hjartanu mínu. Í löngunina um það sem hefði orðið. Þessi vonbrigði eru svo sár að stundum langar mig hreinlega að æla.

Á morgun kemur nýr dagur. Þá hefði regnbogalitað Eurovision-rykið verið að svífa niður og loks sest. Nokkrar vikur munu nú líða áfram í sumargleði og öðrum skemmtilegheitum. Með haustinu hefst síðan undirbúningur fyrir næstu Eurovision-keppni. Á morgun hef ég bara eitt verkefni – að skilja Eurovision-upplifun þessa árs eftir í minningunni og halda áfram. Halda áfram að vona að einn daginn komi að stundinni sem ég hef beðið eftir alla ævi. Sá dagur kemur brátt. Og jemundur minn hvað það verður stórkostlegt!