Þeir sem elska kaffi og te kannast við brúnleitu blettina sem virðist nær ómögulegt að fjarlægja úr sínum uppáhaldsbollum – þó skrúbbað sé vel með sápu eða bollarnir settir margoft í uppþvottavél.

Ekki örvænta – það er hægt að ná þessum blettum úr krúsunum, þó það sé kannski ekki beint leikur einn.

Matarsódi

Annars vegar er hægt að nota undraefnið matarsóda til að losna við þessa fylgifiska kaffi- og tedrykkju. Þú skalt einfaldlega bleyta aðeins í bollanum og strá síðan smá af matarsóda á alla bletti. Leyfið matarsódanum að liggja á blettunum í nokkrar mínútur og skrúbbið svæðin síðan með svampi eða klút. Hér þarf að skrúbba vel því þessir blettir eru ansi lífseigir. Eftir skrúbbið má þrífa bollana með uppþvottalög.

Salt og edik

Hins vegar er hægt að nota salt og edik, sem hljómar fremur eins og fyrsta skrefið að djúpsteiktum fisk og frönskum, en þessi blanda svínvirkar. Nú bleytir þú í bollanum með hvítu ediki og stráir salti á blettina. Svo leyfirðu þessu að sitja á í nokkrar mínútur og skrúbbar síðan með klút eða svampi. Það er gott að hafa hugfast að ávallt skal skola bollana vel með sápuvatni eftir slíka meðferð, nema þér hugnist edikskotið kaffi á morgnanna.