Ung kona frá Bandaríkjunum að nafni Tess Wright þurfti að losa sig við bikiní á dögunum. Hún auglýsti það því til sölu á Facebook, eins og margir gera.

Við auglýsinguna fékk hún skilaboð frá manni sem vildi endilega fá mynd af einhverjum, væntanlega henni, í bikiníinu áður en hann gæti ákveðið sig hvort hann ætti að festa kaup á sundfatnaðinn eður ei.

Tess fannst athugasemdin lykta af öfuguggaskap og ætlaði að láta hana sem vind um eyru þjóta. Þar kemur bróðir hennar Kade til sögunnar.

Kade ákvað að gera pervertinum á Facebook grikk með því að láta mynda sig í bikiníinu og sýna honum þá mynd. Pervertinn átti væntanlega ekki von á slíkri mynd og heyrðist ekki í honum meir.

Þessi litla saga frá systkinunum hefur vakið mikla athygli á Facebook og hefur verið líkað við hana tæplega þrjátíu þúsund sinnum. Þá hefur henni verið deilt hátt í þrjátíu þúsund sinnum. Ágætis áminning um að internetið er stór frumskógur þar sem margt misjafnt getur leynst.

Inni á vefsíðunni SAFT er að finna góð ráð og leiðbeiningar er varðar hættur á netinu og neteinelti. Þar kemur til að mynda fram eftirfarandi:

„Ef þú verður fyrir aðkasti á netinu er mikilvægt að svara ekki þeim sem er að senda þér skilaboðin. Í stað þess að svara, geymdu skilaboðin og sýndu einhverjum sem þú treystir. Það versta sem þú getur gert ef þú hefur orðið fyrir neteinelti er að segja engum frá því.“

Þá er boðið upp á góða minnispunkta fyrir þá sem verða fyrir neteinelti:

Ekki kenna sjálfum þér um.
Settu þig í spor þess sem leggur þig í einelti.
Fáðu hjálp
Eyddu tíma í að gera hluti sem veita þér ánægju.

Fleiri upplýsingar um netöryggi er að finna inni á saft.is.