Það er fátt betra með góðri köku, vöfflu eða eftirrétti en þeyttur rjómi. En þeyttur rjómi er ekki það sama og þeyttur rjómi. Það er nefnilega lítið mál að færa þeyttan rjóma upp á annað stig með nokkrum einföldum leiðum.

Nóg af fitu

Þið bara verðið að nota alvöru rjóma, ekki matreiðslurjóma. Það er ekki séns að þeyta matreiðslurjóma þar sem mjólkurfituprósentan er alltof lág.

Ískaldur rjómi

Það er langbest að þeyta ískaldan rjóma. En ef það er heitt í veðri eða mjög heitt í eldhúsinu er gott að hjálpa rjómanum aðeins með því að kæla bæði skálina sem þú þeytir í og það sem þú þeytir með í ísskápnum í smá stund. Þá er best að nota skál úr málmi eða gleri og sleppa plastinu.

Ekki bara rjómi

Rjómi er góður einn og sér en ef maður bætir smá flórsykri við hann áður en maður þeytir hann eða eftir að hann er þeyttur verður rjóminn stórfenglegur. Það er líka ofboðslega gott að setja nokkra vanilludropa, smá vanillusykur eða fræ úr einni vanillustöng saman við til að gera rjómann extra ljúffengan.

O, ó – rjóminn minn er að verða smjör!

Ef þú þeytir rjómann of lengi og hann fer að minna á smjör er hægt að bæta smá meiri óþeyttum rjóma saman við og hræra aðeins til að bjarga því sem bjargað verður. En ef rjóminn er orðinn að smjöri er voðalega lítið hægt að gera annað en að njóta smjörsins. Þetta gerðist einu sinni á æskuheimili mínu þegar systir mín gleymdi sér aðeins með þeytarann og við hlógum bara dátt og fengum okkur brauð með smjöri.