COVID-19 kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á allan heiminn og hefur um það bil þriðjungur mannkyns búið við einhvers konar samkomu- eða útgöngubann á einhverjum tímapunkti það sem af er ári.

Mikið er skrifað og birt á internetinu um sjúkdóminn og faraldurinn og margar flökkusögur á kreiki. Hér eru þrjár ansi lífseigar mýtur um COVID-19.

Hanskar vernda mann 100% gegn COVID-19

Nei, það er ekki alls kostar rétt. Landlæknir mælir til að mynda ekki með að hanskar séu notaðir að staðaldri, hvort sem það er í daglegum athöfnum eða í verslunum, en margar verslanir bjóða upp á ókeypis, einnota hanska.

„Það veitir falska öryggiskennd og stöðug notkun ýtir undir að farið sé á milli hreinna og óhreinna hluta, án þess að skipt sé um hanska. Best er að þvo sér um hendur og þurrka vel áður en matvæli eru snert og eða matar er neytt, alltaf eftir salernisferðir og þegar hendurnar mengast. Komist maður ekki í handlaug til að þvo sér er ráðlagt að nota handspritt í stað handþvottar,“ stendur á vef Landlæknis og bætt við:

„Ef fólk vill nota hanska t.d. við afgreiðslu eins og í bakaríum, þá þarf að fara í hreina hanska fyrir hverja afgreiðslu og henda þeim gömlu í ruslaílát.“

5G-fjarskiptanet veldur COVID-19

„Nei, í stuttu máli sagt þá er ekkert til í því,“ stendur í svari á Vísindavefnum um þessa mýtu sem hefur heyrst ansi víða og hátt uppá síðkastið.

„Veiran sem veldur COVID-19 og 5G-fjarskiptanet eru tveir alveg ótengdir hlutir en sögusagnir um tengingu þarna á milli hafa þó komist á kreik. 5G-fjarskiptanet er ný (fimmta) kynslóð fjarskiptatækni þar sem notuð er rafsegulgeislun. Orsök COVID-19 er veira sem smitast fyrst og fremst með dropa- og snertismiti á milli manna, til dæmis þegar fólk hnerrar eða hóstar og dopar með veirunni berast á okkur eða hluti í umhverfinu,“ stendur í svari Jónínu Guðjónsdóttur, lektors í geislafræði, á vefnum. Hún útskýrir nánar af hverju ekkert er til í þessari flökkusögu.

„Rafsegulgeislun flytur bara orku og getur ekki flutt efni. Því er útilokað að nota hana til að dreifa veirum eða öðru efni. Í raun er 5G-rafsegulgeislun í eðli sínu mjög lík eldri kynslóðum (4G og 3G) og áhrifin á mannslíkamann (og aðrar lífverur) þar með lítið breytt. Á vef Geislavarna ríkisins má finna fræðsluefni á íslensku um 5G. Það er ekkert sem bendir til þess að notkun 5G-rafsegulgeislunar sé skaðleg mönnum, sé farið er eftir lögum og reglum. Það stafar hins vegar raunveruleg hætta af veirunni sem veldur COVID-19.“

Jónína skrifar einnig að ekki skuli lesa í það að COVID-19 komi upp á sömu stöðum og 5G finnst.

„Það er ekkert dularfullt við það að COVID-19 og 5G finnist á sömu stöðum á jörðinni því hvort tveggja er algengara þar sem fólk er fleira. COVID-19 hefur náð til nánast allra landa en ekkert samhengi er á milli þess hve illa lönd verða fyrir barðinu á veirunni og þess hvort innleiðing 5G er hafin eða hve langt hún er komin.“

Matvæli bera smit

Um þessa mýtu er hægt að lesa margt og mikið á vef Matvælastofnunar. Þó ekki sé hægt að slá því föstu að matvæli geti borið smit þá er það talið afar ólíklegt.

„Ekkert bendir til þess að kórónaveiran berist með matvælum skv. áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra,“ stendur á vef stofnunarinnar.

„Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir úðasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Mjög ólíklegt er þó að hún nái að berast milli landa með ávöxtum og grænmeti. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu.“

En hvað með umbúðir matvæla?

„Það er mjög ólíklegt að menn smitist af kórónaveirunni við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð er góð venja. Fylgið leiðbeiningum landlæknis um handþvott og smitvarnir,“ stendur á vef Matvælastofnunar.