Carole Baskin hefur verið á allra vörum síðan að Netflix-þættirnir Tiger King fóru í loftið. Í þáttunum kemur fram að Carole hafi háð allt að því blóðugt stríð við nokkra aðila sem halda villt dýr í Bandaríkjunum og heldur hún því fram að hún bjargi villtum dýrum og hugsi um þau í garði sínum, Big Cat Rescue í Tampa í Flórída.

Baskin hefur verið afar umdeild síðan að þættirnir fóru í loftið og telja margir að hún sé lítið skárri en fólkið sem hún deilir við, svo sem aðalpersónan Joe Exotic. Baskin sjálf hefur neitað að tjá sig síðan að þættirnir urðu aðgengilegir á Netflix því hún er afar ósátt við hvernig hún kemur út í þáttunum, en í Tiger King er því meðal annars velt upp hvort hún beri ábyrgð á hvarfi annars eiginmanns síns, Don Lewis.

Ekki minnst á Tiger King

Josh Pieters og Archie Manners halda úti vinsælli YouTube-rás og hafa stundað það að plata frægt fólk í viðtöl. Nú vantaði þá áskorun og ákváðu því að reyna að gabba Carole Baskin í viðtal, sitt fyrsta viðtal frá sýningu Tiger King-þáttaraðarinnar. Þóttust þeir sá um bókanir fyrir hinn geysivinsæla spjallþátt Tonight Show með Jimmy Fallon.

Það tók þá Pieters og Manners dágóða stund að sannfæra Baskin um að veita viðtalið, en meðal skilyrða fyrir því var að ekki yrði minnst á þættina Tiger King. Að lokum samþykkti Baskin að veita „Jimmy Fallon“ viðtal.

Pieters og Manners tóku hrekkinn upp á myndband sem þeir hafa nú deilt á YouTube-síðu sinni, og er það vægast sagt spaugilegt. Líklegast tilkomumesti hrekkur ársins, þar sem félagarnir lögðu mikið á sig til að finna hljóðklippur af Jimmy Fallon sjálfum svo viðtalið virtist vera ekta í eyrum Baskin.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan og er það vel þess virði að horfa á: