Nú nálgast mín uppáhaldshátíð – smákökuhátíðin mikla!

Þá fer ég alveg á flug og reyni í gríð og erg að finna einhverjar geggjaðar nýjar uppskriftir að smákökum, með misjöfnum árangri.

Ég byrja þessa miklu smákökuhátíð að þessu sinni með samlokukökum sem heppnuðust svona líka vel. Svo vel að þær eru skírðar í höfuðið á mér, eða JólaLiljur.

Þessar samlokukökur eru jól í einum (jú, eða ansi mörgum) bitum. Þær eru stökkar, mjúkar, djúsí og allt þar á milli. Algjör himnasending sem varð til í litla eldhúsinu mínu alveg óvænt.

Það eru einmitt skemmtilegustu uppskriftirnar – þessar sem koma algjörlega óvænt!

Gleðilega smákökuhátíð!

JólaLiljur sem hringja inn jólin

Kökur – Hráefni:

115 g mjúkt smjör
1/2 bolli hrásykur
1/2 bolli hvítur sykur
1 1/2 tsk vanilludropar
1 egg
1 bolli hveiti
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk sjávarsalt
1/4 tsk negull
1 bolli haframjöl

Krem – Hráefni:

100 g mjúkt smjör
2 msk hlynssíróp
200 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk kanill
2-3 msk karamellusósa

Aðferð – Kökur:

Setjið smjör, hrásykur og sykur í skál og þeytið vel saman í nokkrar mínútur. Bætið vanilludropunum við og hrærið. Bætið egginu við og hrærið vel. Bætið hveiti, matarsóda, lyftidufti, salti og negul saman við og hrærið í blöndunni. Loks er haframjöl sett saman við og aðeins hrært saman við með sleif eða sleikju. Leyfið deiginu að kólna í um hálftíma. Hitið ofninn í 180°C og setjið smjörpappír á 2 ofnplötur. Búið til litlar kúlur úr deiginu, raðið þeim á plöturnar og fletjið út með lófanum. Bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brúnirnar á kökunum eru farnar að brúnast. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kremið er sett á.

Aðferð – Krem:

Þeytið krem og hlynssíróp vel saman í 5-10 mínútur. Bætið restinni af hráefnunum saman við og þeytið í aðrar 5-10 mínútur. Smyrjið kreminu á annan helminginn af kökunum og lokið með hinum helmingnum af kökunum. Njótið vel og lengi!