Donald Trump, Bandaríkjaforseti velti fyrir sér ýmsu um heimsfaraldur COVID-19 á viðburði í Arizona í gær, þriðjudag. Meðal þess sem vafðist fyrir forsetanum var nafn faraldursins.

„COVID-19, COVID, hvað þýðir talan 19?“ spurði hann á viðburðinum og hélt áfram.

„COVID-19, sumir geta ekki útskýrt töluna 19.“

Raunar er fyrir löngu búið að útskýra töluna 19 en hún stendur fyrir ártalið 2019, árið sem fyrsta tilfelli af COVID-19 var greint.

Þessar vangaveltur forsetans hafa vakið upp mikil viðbrögð á Twitter og hefur hann fengið öll möguleg og ómöguleg svör við þessari spurningu frá almenningi.