Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum að heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla er í fullum gangi í Katar. Margir eru límdir við skjáinn að fylgjast með sorgum og sigrum fremstu knattspyrnumanna heims en við hjá Fréttanetinu ákváðum að horfa aðeins öðruvísi á boltann að þessu sinni og finna tvífara á mótinu inná milli marka.

„No Ragrets“

Úrúgvæinn Darwin Núñez hefur átt góðu gengi að fagna með landsliði sínu og er enn fremur ein af stjörnum enska liðsins Liverpool. Glöggir aðdáendur markaskorarans hafa líklegast tekið eftir að hann er sláandi líkur leikaranum Mark L. Young, sem hefur helst unnið sér það til frægðar að leika glaumgosann Scottie P. í gamanmyndinni We’re the Millers frá árinu 2013. „You know what I’m saying?“

„I see dead people“

Er alveg búið að ganga úr skugga um að barnastjarnan Haley Joel Osment, sem sló í gegn í kvikmyndinni The Sixth Sense, hafi ekki vaxið úr grasi og orðið heimsfrægur knattspyrnumaður? Hann er allavega ansi líkur enska landsliðsmanninum Harry Kane sem hefur rakað inn mörkum fyrir Tottenham Hotspur.

Hinn franski og hinn danski

Hinn franski Hervé Renard þjálfar landslið Sádi-Arabíu og náði ekki að öskra liðið sitt í úrslit. Það finnast engin opinber gögn sem sanna að Renard sé skyldur danska leikaranum Nikolaj Coster-Waldau. Kári Stefánsson ætti kannski að fara í málið því það bara hlýtur að vera að þeir tveir hafi verið aðskildir í æsku.

Sterkur svipur

Bandaríski leikarinn Jeremy Strong, sem hefur slegið í gegn í þáttunum Succession, er fáránlega líkur portúgalska landsliðsmanninum Bernardo Silva. Sextán ár eru á milli kappanna og hafa þeir báðir skarað fram úr á sínum sviðum.

Í húð og hár

Jón Geir Jóhannsson lemur húðir í hljómsveitinni Skálmöld og hefur einstaklega skemmtilega nærveru á sviði. Hann er keimlíkur velska landsliðsmanninum Joe Allen, sem þurfti því miður að yfirgefa heimsmeistaramótið með liði sínu alltof snemma.

Markaskorarinn og módelið

Markaskorarinn Olivier Giroud er einn af fremstu leikmönnunum í franska landsliðinu, sem hefur fagnað gríðargóðu gengi síðustu ár. Giroud er fæddur árið 1986 en á Bretlandseyjum er að finna fyrirsætuna og sjónvarpsmanninn Clark sem fæddur er tveimur árum síðar. Hér hlýtur að vera einhver skyldleiki því kapparnir tveir eru alveg fáránlega svipaðir.

Heimsálfa á milli

Brasilíu er spáð afar góðu gengi á heimsmeistaramótinu, jafnvel sigrinum sjálfum. Lykilmaður í brasilíska landsliðinu er markvörðurinn Alisson Becker sem virðist á tíðum vera yfirnáttúrulegur á milli stanganna. Becker á ástralskan tvífara í leikaranum Liam Hemsworth sem hefur notið mikilla vinsælda í Hollywood síðustu ár.

Markavefur

Síðast en ekki síst má ekki gleyma stórstjörnunni Lionel Messi sem gæti leitt Argentínu til sigurs á mótinu. Stjörnuvefaranum Guðmundi R. Einarssyni, sem oftast er kallaður GRE, hefur margoft verið líkt við kauða enda eru þeir báðir yfirburðarmenn á sínum sviðum.