„Við erum bara rétt að byrja,“ segir aðalleikkonan Elisabeth Moss í fyrstu stiklunni úr fjórðu seríu af The Handmaid’s Tale, sem sýnd verður á efnisveitunni Hulu á næsta ári.

Í stiklunni, sem má horfa á hér fyrir neðan, heldur karakterinn sem Moss leikur, June, áfram byltingu sinni gegn einræðinu og hörmungunum í Gilead.

Sería 3 endaði á dramatískan hátt, þar sem áætlun June um að smygla ungum stúlkum til Kanada heppnaðist.

Seríurnar um The Handmaid’s Tale eru byggðar á samnefndri skáldsögu frá 1985 eftir Margaret Atwood, en þættirnir hafa farið sigurför um heiminn og unnið til fjölmargra verðlauna.