Hafragrautur er líklegast einn ódýrasti matur sem hægt er að nærast á. Ekki skemmir fyrir að hann er meinhollur, eins og kemur fram í samantekt á vefsíðunni Eat This Not That. Þar er farið yfir sjö holla kosti hafragrautsins, en um er að ræða hefðbundinn hafragraut, ekki sykraða eða óholla útgáfu af honum.

Hann er trefjaríkur

Hafragrautur er fullur af trefjum, sem eru mjög mikilvægir þegar kemur að þarmaflórunni. Í hálfum bolla af höfrum eru fjögur grömm af trefjum. Hafragrautur er mjög seðjandi einmitt út af þessu mikla trefjamagni. Þá tekur líkamann langan tíma að melta hann og þess vegna langar okkur ekkert að borða stuttu eftir neyslu hafragrauts.

 

Hann er stútfullur af næringarefnum

Í hafragrauti eru vítamín og steinefni, svo sem magnesíum, sink og járn, sem auka orku, draga úr bólgum og styrkja ónæmiskerfið. Í hafragraut er einnig mikið af próteini, um fimm grömm í hálfum bolla.

Hann getur lækkað kólestóról

Hér koma trefjar aftur við sögu en þær geta dregið úr slæma kólestórólinu í líkamanum og komið jafnvægi á blóðsykurinn.

 

Hann getur hjálpað þér að lifa lengur

Samkvæmt rannsókn sem birt var í Nutrition Journal getur neysla hafra dregið úr hættu á sjálfsofnæmissjúkdómum og hjartasjúkdómum og getur einnig spornað við þyngdaraukningu. Þá er einnig talið að heilkorn geti aukið líkur á langlífi.

 

Hann inniheldur engan viðbættan sykur

Gömlu, góðu hafrarnir eru algjörlega lausir við viðbættan sykur og gerviefni. Það er mikilvægt að láta ekki glepjast af óhollum tegundum af hafragraut í hillunum og treysta bara á hafra, vatn og salt þegar kemur að hafragraut. Síðan er hægt að skreyta þá með einhverju hollu, svo sem berjum eða ávöxtum.

Hann er fjölhæfur

Hafragrautur er vinsæll matur en einnig mjög fjölhæfur. Það er hægt að blanda alls kyns útgáfur af hafragraut, til að mynda með fræjum, hnetusmjöri eða hnetum.

 

Hann getur komið í stað fyrir hveiti

Það er mjög auðvelt að búa til hveiti úr höfrum. Setjið hafrana í blandara og blandið þar til agnirnar eru örfínar. Þá er hægt að skipta hvíta hveitinu út fyrir hafrahveiti.