Þeir sem borða um 2000 hitaeiningar á dag ættu að borða um 28 grömm af trefjum. Hins vegar eru margir sem borða ekki nærri nóg af trefjum, en þær finnast í ýmsum matvælum, til dæmis heilkorni, ávöxtum og ýmsu grænmeti.

Trefjar eru afskaplega góðar fyrir líkamann, þær koma lagi á þarmaflóruna og fylla magann. Því gæti líkaminn brugðist ókvæða við ef trefjarnar vantar. Vefsíðan Eat This, Not That hefur tekið saman nokkur merki um að þú borðið ekki nóg af trefjum. Kíkjum á það.

Hægðatregða

Ef þú ert oft með hægðatregðu þá getur það verið merki um að þú þurfir að borða meira af trefjum. Ef þú borðar ekki nóg af trefjum þá hægist á meltingunni og líkaminn á erfiðara með að losa sig við úrgang.

Þú ert alltaf svöng/svangur

Hver kannast ekki við að borða stóra máltíð og verða strax aftur svangur? Það er líklegast vegna þess að þessi stóra máltíð var algjörlega trefjasnauð. Trefjar hjálpa til við að hægja á meltingarferlinu og koma lagi á blóðsykurinn sem þýðir að þú ert södd/saddur í lengri tíma. Tilvalið er að bæta trefjaríkum mat eins og avókadó, baunum eða brúnum hrísgrjónum við matinn til að finna fyrir seddu lengur.

Þyngdaraukning

Við eigum það til að borða alltof mikið þegar að trefjar vantar í mataræðið, einmitt út af því að við erum alltaf svöng. Fylgifiskur þess að borða of mikið er þyngdaraukning. Því getur þú losað þig við nokkur kíló ef þú passar upp á trefjarnar.

Síþreyta

Þar sem trefjarnar koma lagi á blóðsykurinn þá er eðlilegt að finna fyrir síþreytu ef trefjar vantar í mataræðið. Þegar þú borðar ekki nóg af trefjum þá meltir líkaminn einföld kolvetni hraðar og því finnur þú stanslaust fyrir þreytu.

Hátt kólestóról

Því minna sem þú borðar af trefjum því meiri hætta er á að kólestórólið rjúki upp úr öllu valdi. Prófaðu að fá þér reglulega hafragraut, baunir eða grænmeti til að passa upp á trefjainntöku.

Meltingarvandræði

Þú gætir fundið oft fyrir uppþembu og vindgangi ef þú borðar ekki nóg af trefjum, en raunar getur þú einnig fundið fyrir þessum einkennum ef þú borðar of mikið af trefjum. Hins vegar finnur þú eingöngu fyrir þessum einkennum ef þú borðar skyndilega of mikið af trefjum þegar þú ert ekki vön/vanur að borða trefjar. Þess vegna er gott að byrja smátt og smátt að bæta trefjum inn í mataræðið til að losna við meltingarvandræði.

Sykursýki

Þeir sem borða mat sem er trefjasnauður og sykurmikill, eins og hvítt brauð, smákökur, hvít hrísgrjón og gosdrykki eru tvisvar sinnum líklegri en aðrir til að þróa með sér sykursýki 2. Þeir sem borða nóg af trefjum eru hins vegar ólíklegir til að þróa með sér sjúkdóminn.