Árið 2019 létust 2.269 einstaklingar með lögheimili á Íslandi, 1.155 karlar og 1.114 konur. Heildardánartíðni árið 2019 var 629,3 látnir á hverja 100.000 íbúa, 624,7 hjá körlum og 634,1 hjá konum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tölulegum upplýsingum um dánartíðni og dánarorsakir sem birtar eru í nýjum talnabrunni embætti landlæknis.

Í úttekt embættisins kemur fram að flestir hafi látist úr illkynja æxlum og hjartasjúkdómum árið 2019. Þannig hefur það verið um árabil.

„Illkynja æxli hafa um langt skeið verið algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi. Þrátt fyrir að illkynja æxli séu algengasta dánarorsök landsmanna þá hefur aldursstöðluð dánartíðni vegna þeirra lækkað nokkuð frá árinu 1996. Er dánartíðnin heldur hærri meðal karla en kvenna en tíðnin hefur hins vegar lækkað meira hjá körlum heldur en konum undanfarna áratugi,“ stendur í talnabrunni.

„Flestir karlmenn sem létust vegna krabbameina árið 2019, dóu vegna illkynja æxlis í blöðruhálskirtli og vegna illkynja æxlis í barkakýli, barka, berkju og lunga. Andlát flestra kvenna sem létust vegna krabbameina árið 2019 má rekja til illkynja æxlis í barkakýli, barka, berkju og lunga og til illkynja æxlis í brjósti.“

Aðrir sjúkdómar sem drógu flesta Íslendinga til dauða í fyrra eru Alzheimer-sjúkdómurinn, heilaæðasjúkdómar, sjálfsvíg og sykursýki.

Rýna má nánar í tölur landlæknis með því að smella hér.