Síðustu ár hef ég lært að elska lasanja meira og meira. Uppskriftina hér að neðan fann ég á vefsíðunni Taste of Home en ástæðan fyrir því að ég er mjög hrifin af þessari uppskrift er einfaldlega magnið af osti í henni.

Ég mæli klárlega með þessu lasanja á köldum haustkvöldum – réttur sem allir í fjölskyldunni elska.

Lasanja með 4 ostategundum

Hráefni:

450 g nautahakk
1 meðalstór laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 tsk oreganó
1 tsk basil
850 g pastasósa
2 egg, þeytt
2 bollar kotasæla
2/3 bolli parmesan ostur, rifinn
1/4 bolli cheddar ostur, rifinn
1 1/2 bolli mozzarella ostur, rifinn
12 lasanjaplötur
1 tsk ítalskt krydd

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C. Eldið hakk, lauk og hvítlauk í stórri pönnu yfir meðalhita í um 5-7 mínútur. Hrærið kryddi og pastasósu saman við. Blandið eggjum, kotasælu, parmesan osti, cheddar osti og 1/2 bolla af mozzarella osti saman í skál. Drefið 1 bolla af kjötsósunni í vel smurt eldfast mót. Raðið 4 lasanjaplötum yfir, hellið ostablöndunni yfir það, síðan helmingnum af restinni af kjötsósunni. Endurtakið tvö síðustu lögin. Stráið ítölsku kryddi yfir og restinni af mozzarella ostinum. Hyljið með álpappír og bakið í 50-55 mínútur. Látið standa í tíu mínútur áður en þið dýfið ykkur í þessa dásemd.

Sjá einnig:

Lasanja sem ærir óstöðugan