Ragnheiður Guðjohnsen heiti ég og starfa sem andlitsmótunarkennnari í dag. Ég er enn fremur lærður hárgreiðslumeistari, lyfjatæknir og sjúkraliði með próf í bókhaldi frá NTV skólanum.

Sem krakki var ég hamingjusöm, glöð og virk í íþróttum og félagslífi. Ég elskaði sjálfa mig, allt og alla. Ég ólst upp fyrstu sjö ár ævinnar á Húsavík, þaðan sem foreldrar mínir eru. Frelsið og fegurðin í þessum litla bæ umlukti mig sem krakka.

Þegar ég var sjö ára fluttum við fjölskyldan til Reykjavíkur. Ég man að það var svolítið sjokk – allt var svo stórt og mikið. Um leið og skóla var slitið á vorin var ég farin til ömmu og afa á Húsavík í kyrrðina, fegurðina og öryggið. Þegar leið á unglingsárin og hormónarnir farnir að gera vart við sig upplifði ég lífið allt í einu svo alvarlegt, fannst of mikið af vandamálum og sakleysið og frelsið bara hvarf. Ég horfði í spegil og sá bara hvað var að. Ég var kannski með eina bólu og heimurinn hrundi. Minnimáttarkennd og óöryggi tók völdin allt í einu. Ég fór að hafa áhyggjur hvernig ég myndi eldast og gerði samning við mig að ég myndi kaupa dýrasta og flottasta kremið þegar ég væri komin á þrítugsaldurinn. Þessi káta, lífsglaða stelpa sem ég var sem krakki breyttist nánast á einum degi í alvarlegan ungling með heimsins áhyggjur á herðum sér. Ég kann ekki útskýringu á þessari breytingu nema það að ég var að opna augun fyrir þvi að lífið var ekki alveg það sem það sýndist þegar ég var saklaus og ung, lífið var líka með skuggahliðar og það fannst mér svo erfitt að sætta mig við.

Tíminn leið og sjálfsöryggið kom smá saman að einhverju leiti aftur. Ég eignaðist þrjú yndisleg börn sem er það dýrmætasta sem maður upplifir í þessu lífi. Ég, eins og margir Íslendingar, kepptist við að standa mig og afreka eitthvað. Ég setti upp mína eigin hárgreiðslustofu og vann af ástríðu við hárgreiðsluna í fimmtán ár og virkilega naut þess. Ég tók þátt í hárgreiðslusýningum og sótti hin og þessi hárgreiðslunámskeið, bæði hérlendis og erlendis. Ég tók einnig þátt í Íslandsmeistarakeppni í hárgreiðslu eitt árið og náði góðum árangri, hreppti 2. sæti í daggreiðslu. Ég virkilega elskaði þessa vinnu, elskaði að gera kúnnana mína ánægða og flotta og ekki var það verra að ég eignaðist mikið af vinum, þar sem nándin er mikil í þessu fagi og margir kúnnar fara að treysta manni fyrir hinu og þessu. Vináttan verður meiri og innilegri.

Það var því erfiður skilnaður þegar ég þurfti að gefa hárgreiðsluna upp á bátinn vegna stoðkerfisverkja. Ég endaði í fjóra mánuði á Reykjalundi, sem hjálpaði mér mikið í baráttunni við verki og svefnleysi. Við útskriftina á Reykjalundi skráði ég mig í nám í lyfjatækni. Við tók vinna í apótekinu á spítalanum og út frá því fór ég í en eitt námið, sjúkraliðann og kláraði það. Þegar hér var komið við sögu voru stoðkerfisverkir og svefnleysi farið að stjórna lífi mínu, og ég brá á það ráð að taka betur á heilsu minn. Ég skráði mig hjá Virk og var hjá þeim í einhverja mánuði. Þar fékk ég ótrúlegan stuðning.

Móðir mín féll frá á sama tíma og ég kláraði nám á vegum Virk, bókhaldsnám hjá NTV skólanum. Móðurmissirinn var sár og erfiður. Loksins þegar ég var að rífa mig upp úr því sem hafði hrjáð mig lengi. Þá ákvað ég að ég yrði bara ofuramma það sem eftir var. Ég ætlaði að leggja allt sem tengdist að koma mér út á vinnumarkaðinn á hilluna og var bara þakklát fyrir að halda þeirri litlu heilsu sem ég hafði. Ég var þakklát fyrir þessa 4 til 5 tíma í svefn því það virtist vera eitthvað sem myndi hvort sem er fylgja mér áfram.

Á ákveðnum aldri þegar við lítum í spegil og sjáum að andlitið er farið að síga, sjáum meiri línur og að við eldumst hraðar en áður, gerum við okkur grein fyrir því að aldurinn er að færast yfir okkur. Og hvað er þá til ráða þarna úti? Þessar hugsanir sóttu mikið á mig þegar ég var komin á þann stað í lífi mínu að ég var búin að upplifa það að vinna yfir mig og krassa líkamlega, sem andlega.

Ég leit í spegil og hugsaði: Hvaða þreytta kona er þarna í speglinum? Með þrútin augu, bauga undir augunum, húðin í ójafnvægi, hangandi kinnar, undirhakan að aukast, bjúgur og þreyta einkenndi andlit mitt. Er þetta sem bíður mín? Að hrökkva við í hvert skipti þegar ég myndi líta í spegil, sjá andlit mitt sem minnti mig á hvernig lífið væri búið að leika mig. Hvað gæti ég gert? Ég vildi ekki vera svona, ég varð að bæta svefninn, ég varð að finna ráð til að sættast við spegilinn. Hvað var til ráða? Jú, ég vafraði eitthvað á netinu og sá allskonar loforð um einhver undraráð til að öðlast betri húð, allskonar undrakrem eða undrameðferðir áttu að hjálpa. En það náði ekki til mín, mig langaði ekki að freistast í allskonar aðgerðir, treysta á einhverjar nálar, undraefni eða fara undir hnífinn til að sættast við spegilinn.

Ég viðurkenni það að þessar hugsanir settust á sálina mina, ég varð alltaf sorgmædd þegar ég sá spegilmynd mína. Spegilmyndin minnti mig á að ég þráði breytingar.

Einn góðan veðurdag varð mér litið á auglýsingu um æfingar sem hægt væri að gera fyrir andlitið til að styrkja, slétta og fegra, alveg eins og með líkamann. Við förum í líkamsrækt og byggjum upp vöðvana til að öðlast betri heilsu og líta betur út. Frábært! Vá! Ég varð svo spennt að prufa að ég stökk á 28 daga pakka með andlitsæfingum og viti menn, þetta svínvirkaði. Ég var hissa að hafa ekki verið búin að hugsa út í það fyrr að það væri hægt að vinna á móti öldrun á andliti með andlitsæfingum. Gen, þyngd, streita, tilfinningar, áföll og venjur hafa ekki aðeins áhrif á hversu hratt við eldumst heldur líka hvernig við eldumst. Hugmyndin um að snúa við og hægja á þessu ferli með því að gera andlitsæfingar nokkrar mínútur á dag hljómaði framandi, en á sama tíma spennandi.

Ég varð svo hamingjusöm með þetta nýja leyndarmál mitt að ég var að springa, ég varð að fá að deila þessu með öðrum og mig dauðlangaði að verða kennari, andlitsmótunarkennari. Mig langaði að gleðja aðra, eins og þegar ég var í hárgreiðslunni, hjálpa fólki að elska spegilinn og í sömu svipan sá ég að það var verið að bjóða nám í andlitsrækt. Ég þakka Guði fyrir að ég sá þennan skóla frá þessum kennara því að margir eru að kenna allskonar æfingar fyrir andlitið sem skaða meira en þær laga.

Ég vissi ekki fyrr en ég var búin að skrá mig og komin á fullt. Ástríðan var svo mikil að ég lét mig hafa það þó að svefnleysi og stoðkerfisverkir væru enn að hrjá mig. Ég gat gleymt mér og virkilega notið. Ég talaði ekki um þetta nám við neinn nema manninn minn og dóttur mína því ég vildi ekki truflun á meðan á náminu stóð. Mér fannst ég hafa uppgötvað heilan fjársjóð sem mig langaði að halda út af fyrir mig þar til ég færi að deila honum með öðrum.

Ég fann fljótt að reynslan mín í hárgreiðslunni, lyfjatækninni og sjúkraliðanum myndi nýtast í kennslu í andlitsmótun. Að innsýn mín í að þjóna, gleðja, skilja þarfir og langanir annarra kæmu sér vel. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki, list, heilsu og líkamsrækt og að kenna andlitsmótun sameinaði þessa þætti. Um leið og þú ferð að elska spegilinn fer sálinni þinni að líða betur, þú verður sátt/ur í eigin skinni. Það sem gerist þegar þú ferð að stunda andlitsmótun hjá Facefit er að þú ferð að huga betur að mataræði og almennri hreyfingu. Það sem skiptir sköpum í andlitsmótun hjá Facefit er líkamsstaðan, öndunin og lífsstíll þinn.

Sjálfstraust snýst ekki bara um útlit heldur líka um líðan, en ef við lítum þreytulega út þá jafnvel virkum við eldri en við í raun erum. Það hefur þá áhrif á líðan okkar sem síðan hefur áhrif á sjálfstraustið.