Plötusnúðurinn Hlynur Jakobsson hefur á hverju einasta kvöldi klukkan 19.30 síðan að samkomubannið hófst spilað tónlist frá níunda áratugnum, til að gleðja sig og aðra. Hefur Hlynur sýnt beint frá þessum einstöku danspartíum á samfélagsmiðlum.

Ellý Ármanns, unnusta hans, dansar alltaf með honum heima í stofu ásamt fjölda Íslendinga sem hafa gert slíkt hið sama heima hjá sér og þannig dansað í gegnum ástandið.

Fréttanetið ætlar að senda út danspartí Hlyns öll föstudagskvöld í allt sumar.

„Af hverju dönsum við saman? Jú af því að þannig eflum við innsæið, opnum hjartastöðina og styrkjum líkamann,“ segir Ellý um kosti dansins.

„Dansinn vekur nefnilega frumurnar sem framleiða jákvæð, sterk, góð prótein í líkamanum þegar við hreyfum okkur og brosum og kveikjum þar með á djúpri gleði, jákvæðni og bjartsýni innra með okkur.“

Ellý og Hlynur ætluðu að ganga í það heilaga í sumar en frestuðu brúðkaupinu fram á næsta ár vegna COVID-19. Þau dansa sig í gegnum lífið þangað til.

Ekki missa af fyrsta danspartíinu á Fréttanetinu í kvöld klukkan 19.30.