Það kannast eflaust margir Íslendingar við það að kvarta yfir því að þurfa að borða myglað brauð í uppvextinum og að foreldrarnir hafi tuggið það (já, þetta er orðagrín) ofan í börnin að smá mygla á brauði sakaði ekki neinn.

Tja, það er nú bara ekki rétt, ef marka má ráð á Leiðbeiningastöð heimilanna. Sorrí, allir foreldrar þarna úti.

Á vef Leiðbeiningastöð heimilanna stendur nefnilega eftirfarandi:

„Ef þú sérð myglublett á brauðsneið ætti alltaf að henda öllum pokanum. Myglusveppurinn gæti hafa breiðst út langt inní brauðsneiðarnar þó myglan sjáist ekki.“

Og það er meira:

„Þjóðsagan sem við mörg hver fengum að heyra sem krakkar um að myglan á brauðinu væri bara holl því það væri pensilín í henni, er því rakinn vitleysa!!“

Tvö upphrópunarmerki voru greinilega þörf til að hrekja þessa flökkusögu. Þar hafiði það!