Fjórða serían af The Crown kom inn á streymisveituna Netflix síðastliðinn sunnudag, en margir hafa beðið óþreyjufullir eftir þáttaröðinni.

Leikkonan Emma Corrin fer með hlutverk Díönu prinsessu í seríunni og hefur slegið í gegn sökum þess hve sláandi lík Díönu hún er. Er þetta eina serían sem Corrin mun túlka Díönu því í þáttaröð fimm og sex lendir það í hlut leikkonunnar Elizabeth Debicki. Erfið fótspor að feta í.

Corrin leikur Díönu frá aldrinum 16 til 28 ára. Í The Crown fáum við að fylgjast með því þegar að Díana kynntist Karli prins, sem hún gekk síðar að eiga. Þá fáum við einnig að fylgja Díönu er hún eignast synina tvo og fáum innsýn í baráttu hennar við þunglyndi og lotugræðgi.

Sjá einnig:

12 hlutir sem þú vissir ekki um Díönu prinsessu

Hér má sjá Díönu til vinstri og Corrin til hægri.

Í viðtali við GQ er Corrin spurð hvað hún haldi að Vilhjálmi og Harry, sonum Díönu, finnist um þættina The Crown.

„Ég get ekki ímyndað mér það,“ segir Corrin. „Ég ætla ekki að segja að það skipti ekki máli því það væri fáviska. Ef einhver gerði þátt um ömmu mína sem dó í fyrra þá yrði erfitt fyrir mig að horfa,“ segir leikkonan, en Díana prinsessa lést í bílslysi í París árið 1997 eftir að paparassar veittu bifreið hennar eftirför.

Corrin segist hafa áhuga á að vita hvað Vilhjálmi og Harry finnist um túlkun sína á móður þeirra en gæti aldrei spurt þá sjálf.

„Ég myndi örugglega fara ef ég sæi þá einhvern tímann í teiti.“

Viðtalið við Corrin má lesa hér.