Varnaðarorð sjónvarpsmannsins John Oliver til Meghan Markle árið 2018 hafa gengið í endurnýjun lífdaga á internetinu eftir viðtal bandarísku sjónvarpskonunnar við Meghan og eiginmann hennar, Harry prins.

Í viðtalinu lýsti Meghan því hve illa henni hefði liðið innan bresku konungsfjölskyldunnar og hvernig enginn hafi rétt henni hjálparhönd þegar hún þjáðist af kvíða og sjálfsvígshugsunum. Það má segja að John Oliver hafi séð þetta allt fyrir, en hann tjáði sig um samband Harry og Meghan í þættinum The Late Show með Stephen Colber nokkrum mánuðum áður en Harry og Meghan gengu í það heilaga árið 2018.

„Ég myndi ekki lá [Meghan] ef hún hætti við á síðustu stundu,“ sagði Oliver og hélt áfram. „Ég held að þú þurfir aðeins að sjá fyrsta þátt af The Crown til að fá á tilfinningunni að það að giftast inn í svona fjölskyldu gæti valdið manni tilfinningalegu tjóni.“

Sjá einnig:

Þetta er ástæðan fyrir því að Meghan og Harry birtast aldrei í The Crown

Oliver sagði enn fremur að ráðahagurinn myndi ekki koma Meghan vel.

„Þetta er tilfinningalega bældur hópur af verulega gölluðu fólki sem vinnur gervivinnu. Það er hún að giftast inn í. Ég vona að henni líki það vel. Þetta verður skrýtið fyrir hana. Ég myndi ekki kvænast inn í konungsfjölskylduna. Ég er almúgamaður. Ég yrði ekki boðinn velkominn í hópinn – sérstaklega eftir það sem ég hef nú sagt.“

Myndband af viðtalinu má sjá hér fyrir neðan: