Gylfi Björgvinsson er umsjónarmaður fasteigna hjá Reiknistofu bankanna, stofnun sem hann hefur unnið hjá í áraraðir. Það er alltaf stutt í grínið hjá Gylfa og nóg af skemmtisögum í sögubanka hans. Gylfi leynir á sér, en þeir sem þekkja hann í dag vita kannski ekki að á sínum yngri árum var Gylfa oft ruglað saman við breska tónlistargoðið Rod Stewart. Svo mikil voru líkindin að Gylfi græddi á þeim á fleiri en eina vegu.

„Á níunda áratug síðustu aldar fékk ég klippingu sem þau á hárgreiðslustofunni kölluðu Rod Stewart-klippinguna. Ég vildi líka láta setja ljósar strípur í hárið sem ég fékk frítt vegna þess að þeim á hárgreiðslustofunni fannst ég óvenju líkur goðinu þegar búið var að klippa mig sítt að aftan. Ekki bara það heldur fékk ég fría klippingu og strípur í heilt ár þegar búið var að setja þær fyrstu, því líkindin með mér og goðinu urðu mun meiri þegar þær höfðu verið settar í,“ segir Gylfi og brosir þegar hann rifjar upp þennan tíma. „Ekki þarf að orðlengja það að tíminn sem í hönd fór var afar sérstakur. Ég var í tíma og ótíma kallaður eftir goðinu og sérstaklega á skemmtistöðunum. Geta má þess að Rod Stewart var einmitt klipptur svona á þessum tíma. Þessum líkindum hefur löngum verið haldið til haga af vinafólki æ síðan. Þó höfum við vaxið frá hvor öðrum á seinni árum, kannski sem betur fer.“

Taldi Rod og Gylfa vera sama manninn

Ungur Gylfi. Eða er þetta Rod Stewart?

Áður en lengra er haldið verður undirrituð að taka fram að Gylfi er móðurbróðir hennar. Hún kannast því vel við fyrrnefndan samanburð. Hún er fædd árið 1982 og man sterkt eftir því á æskuárunum að hún hafi verið sannfærð um að Rod Stewart væri frændi sinn, eingöngu út af því að Gylfi frændi var svo líkur tónlistarmanninum. Á tíma kviknuðu meira að segja þær vangaveltur í hennar litla kolli að hugsanlega væru Gylfi og Rod einn og sami maðurinn. Undirrituð var komin vel á legg, og rúmlega það, þegar að móðir hennar leiðrétti þennan misskilning og fullvissaði hana um að hún væri á engan hátt skyld Rod Stewart. Undirrituð hefur enn sínar efasemdir.

Fékk óvænt miða

En aftur að Gylfa og líkindunum við Rod Stewart. Þau áttu nefnilega eftir að koma Gylfa í aðstæður sem hann gleymir seint.

„Það mun hafa verið á jólaföstu árið 1986 sem hingað til lands kom bresk poppstjarna. Sú var kvenkyns og hafði verið í töluverðu uppáhaldi hjá mér um langt skeið áður en hún kom til að halda þessa tónleika í Laugardagshöllinni. Vinur minn hafði náð sér í tvo miða og ætlaði að bjóða konunni sinni með sér á þessa tónleika. Þegar átti að fara í Höllina kom í ljós að konan vinar míns þoldi ekki þessa poppstjörnu og gat engan veginn hugsað sér að fara og hlýða á hana og sjá. Nú voru góð ráð dýr hjá vini mínum og hafði hann samband við mig til að ræða hvað hægt væri að gera í stöðunni. Ég lagði til að við færum bara saman á þessa tónleika og ég gæti keypt af honum miðann sem hann hafði verslað fyrir konuna sína. Þetta varð raunin og gert, klappað og klárt. Ég hafði satt að segja góða tilfinningu fyrir þessu og bara hlakkaði til að fara í Höllina og horfa og hlusta á þessa stjörnu,“ segir Gylfi og bætir við að nokkrum dögum áður hafði hann heimsótt hárgreiðslustofuna fyrrnefndu og fengið sér Rod Stewart-klippinguna.

„Dagurinn rann upp, tónleikarnir í Höllinni skyldu haldnir, mikið var um að vera og vel í lagt svo allt færi nú vel fram. Ég og vinur minn mættum snemma svo við fengjum almennileg stæði því ekki var setið við þessar aðstæður. Við fengum stæði mjög framarlega, svo framarlega að við vorum nánast í sviðsljósinu allan tímann. Íslenska hljómsveitin Skriðjöklar hituðu upp og einnig hljómsveitin Rikshaw sem gerðu það vel, sérstaklega sú fyrrnefnda. Þeir náðu upp verulega góðri stemmingu enda sennilega á hátindi ferils síns.“

„I love him“

Eftir upphitun þessara sögufrægu sveita var komið að stóru stundinni.

„Þegar goðið sjálft steig á svið ætlaði þakið hreinlega af Höllinni, allt nötraði og skalf þegar sjálf Bonnie Tyler birtist. Fólk var verulega tryllt og við sem vorum þarna fremst þurftum oft að spyrna við svo við værum hreinlega ekki troðin niður,“ segir Gylfi. Fljótlega fór Bonnie Tyler að sýna honum og vini hans óeðlilega mikla athygli.

„Vinur minn sagði oft að Bonnie væri að blikka okkur en ég vildi nú ekki meina að svo væri, sýndist hún vera að blikka fólk í salnum hægri, vinstri og hélt að þetta væri nú bara hluti af sviðframkomu hennar. Þetta voru æðislegir tónleikar og hún spilaði öll sín bestu lög og tókst það vel enda vakti það mikla lukku. Þegar tónleikunum var að ljúka var ég orðinn verulega þreyttur í fótunum af því að standa uppréttur allan þennan tíma. En allt tekur enda og lokalagið hljómaði, sem var aukalag, lófaklappinu ætlaði hreinlega aldrei að ljúka en þegar ljóst var að spilað hafði verið allra síðasta lagið, fór fólk að týnast út,“ bætir Gylfi við. Þá gerðist hið ótrúlega.

Hér má sjá Gylfa slá á létta strengi með Rod Stewart-hárkollu.

„Tveir fílefldir öryggisverðir birtust og stefndu beint á mig. Ég leit í kringum mig í von um að þeir ætluðu að taka einhvern annan en mig en þeir stilltu sér upp sitthvoru megin við mig, tóku undir handakrikann á mér og leiddu mig í burtu. Sögðu að ég ætti að koma með þeim. Vinur minn elti en var fljótlega meinað að fylgja með og beið fyrir utan. Þessir pörupiltar leiddu mig þarna á bakvið í gegnum fullt af hurðum. Loks var ég kominn inn í búningsherbergi sem var með fullt af speglum og ljósum og allskonar græjum. Þarna slepptu piltarnir mér og höfðu á orði að þeir hefðu verið sendir eftir mér. Ég hafði ekki hugmynd um hvað var í vændum og hafði heldur ekki hugmynd um hvað ég átti að gera þarna. En þarna birtist hún, sjálf Bonnie Tyler í öllu sinu veldi, og búin að skipta um föt. Hún var komin í eðlilegan fatnað og hafði líka þurrkað mesta glimmerið framan úr sér. Ég auðvitað stóð þarna, saklaus sveitastrákurinn, frammi fyrir heimsfrægri poppstjörnunni, feiminn og varnarlaus,“ segir Gylfi og heldur áfram. „Hún heilsaði mér voða kammó og ég gat stunið upp nokkrum orðum og spurt hvers vegna ég væri þarna. Jú, hún sagðist bara vilja kyssa mig á kinnina, sem hún og gerði svo um munaði. Aftur spurði ég af hverju ég. Þá kom það: „You’re most like Rod Stewart of all I’ve seen. And I love him“.“

Þvoði sér ekki í framan lengi

Eins og gefur að skilja kom þetta Gylfa í opna skjöldu.

„Ég stóð þarna örugglega eins og álfur og starði á þessa fallegu poppstjörnu. Þegar ég hafði þakkað henni fyrir þennan vel útilátna koss var mér vísað út með tvo miða í eftirpartí sem átti að hefjast örstuttu síðar. Vinur minn beið eftir mér fyrir utan og trúði ekki einu orði af því sem ég sagði honum. Við fórum ekki í þetta partí en sennilega mest út af því að við hreinlega þorðum ekki. Við höfðum aldrei farið í svona partí og vissum ekkert hvernig þau færu fram,“ segir Gylfi sem hugsar enn til þess hvernig kvöldið hefði farið hefði hann látið slag standa.

„Ég, sem aldrei sé eftir neinu, sé enn eftir því að hafa ekki farið. Varla þarf að hafa orð á því að ég þvoði mér ekki í framan í langan tíma eftir þennan stórkostlega koss. Þessi stund er mér dýrmæt í minningunni og ég mun alla tíð dá og dýrka Bonnie Tyler. og reyndar Rodda gamla líka.“