Ariel Björk Olafsson er aðeins fimm ára gömul en setti nýverið á markað sína fyrstu fatalínu sem samanstendur af jógafötum fyrir börn. Ariel er með bein í nefinu og veit nákvæmlega hvað hún vill, en hönnunarhæfileikana á hún ekki langt að sækja. Móðir hennar, Hildur Eik Ævarsdóttir, á og rekur verslunina NOROM, sem hefur vaxið og dafnað síðustu ár.

Vill vera búðarkona eins og mamma

Fréttanetið tók Ariel Björk tali út af þessum tímamótum og það er ljóst að mamman er hennar helsta fyrirmynd.

„Ég vil vera búðarkona eins og mamma mín. Ég byrjaði að teikna listaverk en ekki svo margir keyptu myndirnar mínar. Ég mátti ekki selja þær í búðinni,“ segir Ariel Björk og vísar í verslun móður sinnar á Laugavegi 7 þar sem hægt er að versla NOROM varning til jóla. „Mamma er að gera föt og ég vil vera eins og mamma, en ég vil vera eins og Hebba frænka mín líka því hún er svo flink að baka,“ bætir Ariel Björk við.

Aðspurð hvort hún hafi fengið hjálp við að hanna og framleiða sína eigin fatalínu stendur ekki á svörunum.

„Ég gerði þetta alveg sjálf,“ segir Ariel Björk hnarreist. Þá grípur mamman Hildur aðeins fram í, kankvís á svip, og þykist örlítið hafa hjálpað til að gera þennan draum að veruleika.

Jógafötin fást annars vegar hvít og svört og hins vegar bleik.

En af hverju jógaföt?

„Af því að þá get ég selt mörg jógaföt og keypt síma einhvern tíman. Ég elska jóga og ég vil alltaf vera í topp eins og stelpurnar í skólanum. Ég æfi jóga í Miami og ætla vera í jógafötunum mínum þar,“ segir Ariel Björk, en hún er búsett vestan hafs með móður sinni, föðurnum Kristjáni Ólafssyni og systkinunum sínum tveimur. Sökum heimsfaraldurs COVID-19 hefur Ariel Björk dvalið á Íslandi með móður sínum og systkinum síðustu mánuði og nýtt tímann vel í frumkvöðlastarf, aðeins fimm ára gömul.

Sjá einnig:

Ekkert pláss fyrir hálfvita

„Þið getið öll verið dugleg“

Þó að Ariel Björk hafi ekki mátt selja listaverk í verslun móður sinnar á Laugavegi segir hún nú stolt frá því að jógafötin séu nú fáanleg í versluninni. Einnig er hægt að versla þau á vefsíðunni Nine Mindful. Tilfinningin að fá jógafötin loksins í hendurnar var ólýsanleg og kom litla fatahönnuðinum á óvart.

„Ég er stolt – ég vissi ekki að það kæmu svona mörg föt,“ segir hún og brosir. Þetta er langt því frá að vera fyrsta og síðasta línan sem Ariel Björk er með á teikniborðinu.

„Ég vil búa til kjóla og alls konar föt með glimmeri og í regnbogalitum,“ segir Ariel Björk og þarf ekki að hugsa sig tvisvar um þegar hún er spurð hvað hún vilji verða þegar hún verði stærri.

„Búðarkona og danskona.“

Áður en ég get sleppt þessari kornungu kjarnastelpu verð ég að spyrja hvort hún sé með skilaboð til krakka sem vilja gera drauma sína að veruleika.

„Þið getið öll verið dugleg – ekki láta neinn segja ykkur að þið getið ekki gert eitthvað.“